Veður

Aust­lægar áttir og væta með köflum

Atli Ísleifsson skrifar
Kólnar í veðri í bili, en víðáttumikil lægð nálgast úr suðri með hlýnandi veðri annað kvöld.
Kólnar í veðri í bili, en víðáttumikil lægð nálgast úr suðri með hlýnandi veðri annað kvöld. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir austlægum áttum í dag, átta til fimmtán metrum á sekúndum, og vætu með köflum. Úrkomulítið verður þó um landið norðvestanvert.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að hiti verði um frostmark og falli því úrkoman sem snjókoma, slydda eða rigning allt eftir hitastigi, en mildast verður við suður- og austurströndina.

„Snýst í hægari norðaustanátt í kvöld með dálitlum éljum. Birtir víða til í nótt, en áfram dálítil él á víð og dreif fyrir norðan fram eftir degi á morgun.

Kólnar í veðri í bili, en víðáttumikil lægð nálgast úr suðri með hlýnandi veðri annað kvöld.

Á laugardag má því búast við suðaustan og austan hvassviðri eða storm með rigningu í flestum landshlutum.“

Spákortið fyrir klukkan 15 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Norðaustan átt, víða 5-10 m/s. Dálitlar skúrir eða slydduél norðan- og austanlands með hita 0 til 4 stig. Þurrt og bjart að mestu um landið sunnanvert og vægt frost. Vaxandi suðaustanátt og hlýnar vestantil um kvöldið.

Á laugardag: Suðaustan og austan 15-23 m/s og rigning eða slydda. Talsverð úrkoma suðaustantil, en úrkomulítið á Norðurlandi. Heldur hægari suðlæg átt um kvöldið. Hiti 1 til 6 stig.

Á sunnudag: Suðvestan 10-18 m/s, hvassast austantil. Víða skúrir, en þurrt um landið norðaustanvert. Hiti 0 til 5 stig.

Á mánudag: Suðlæg átt yfirleitt 5-10 m/s. Skúrir og hiti 0 til 5 stig, en þurrt norðaustan- og austanlands og vægt frost þar.

Á þriðjudag: Austlæg átt með rigningu, en snýst svo í suðvestanátt með skúrum. Hiti um og yfir frostmarki.

Á miðvikudag: Útlit fyrir suðlæga eða bretyilega átt. Rigning með köflum um sunnanvert landið og dálítil snjókoma norðvestantil, annars þurrt. Hiti kringum frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×