Veður

Vinda­samt á meðan öflugt úr­komu­svæði gengur yfir landið

Atli Ísleifsson skrifar
Það mun rigna víða á landinu í dag en snjóar sums staðar fyrir norðan.
Það mun rigna víða á landinu í dag en snjóar sums staðar fyrir norðan. Vísir/Vilhelm

Skammt suðvestur af Reykjanesi er lægð nú á hreyfingu norðaustur yfir landið og fylgir henni öflugt úrkomusvæði og rignir því víða á landinu en snjóar sums staðar fyrir norðan.

Á vef Veðurstofunnar segir að lægin hreyfist yfir landið í dag og gangi þá í stífa austan- og norðaustanátt með samfelldri slyddu eða rigningu norðantil og síðar snjókomu. Það snýst svo heldur í hægari suðvestanátt með skúrum syðra.

Gular veðurviðvaranir vegna hríðar eru í gildi fyrir norðvestanvert landið í kvöld, nótt og fram yfir hádegi á morgun, fimmtudag.

Gular viðvaranir taka gildi vegna hríðar á Vestfjörðum og Ströndum og Norðurlandi vestra í kvöld og eru í gildi til hádegis á morgun. Veðurstofan

Gera má ráð fyrir hita á bilinu eitt til níu stig í dag og hlýjast syðst.

Í kvöld er lægðin komin austur af landinu, en gengur þá á með hríðarveðri á Vestfjörðum, Ströndum og víða á Norðurlandi, en snýst í vestanstrekking allra syðst og kólnar smám saman.

Norðaustlæg átt á morgun og föstudag, víða él og vægt frost, en frostlaust syðst.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Norðaustan 10-18 m/s, hvassast á Vestfjörðum, en mun hægari austlæg átt sunnan heiða. Víða snjókoma með köflum og vægt frost, en skúrir eða él sunnantil með hita 0 til 6 stig.

Á föstudag: Norðlæg átt, 5-13 m/s, víða dálítil snjókoma eða él og frost 1 til 8 stig, en austlægari og frostlaust syðst.

Á laugardag: Ákveðin austlæg átt og víða snjókoma eða él, en úrkomulítið norðaustanlands. Áfram svalt í veðri.

Á sunnudag og mánudag: Hæg norðlæg eða breytileg átt, víða él og vægt frost.

Á þriðjudag: Útlit fyrir suðaustlæga átt með rigningu eða slyddu og hlýnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×