Til stóð að fyrirlesturinn yrði haldinn í dag klukkan 16:10 í Lögbergi stofu 101. Að viðburðinum stendur Miðaldastofa Háskóla Íslands en tilefni hans er nýútkomin bók Ásgeirs, Eyjan hans Ingólfs en þar er skrifuð sem fjölskyldusaga Ingólfs landnámsmanns í Reykjavík sem er með öðrum þræði saga Íslands. Þar er fjallað um efnahagslegan drifkraft landnámsins í tengslum við breytingar í alþjóðaverslun á tímum víkingaferðanna.
Miðaldastofa hefur nú sent út tilkynningu þess efnis að fyrirlestrinum hafi verið slegið á frest. Þó ástæðan sé ekki tilgreind sérstaklega er einsýnt að ásakanir Bergsveins Birgissonar, rithöfundar og fræðimanns, þess efnis að Ásgeir hafi stuðst við bók hans Leitina að svarta víkingnum við ritun bókar sinnar án þess að geta heimilda, hafa þar sett strik í reikninginn.
Eins og Vísir hefur greint frá hefur Bergsveinn vísað því máli til siðanefndar Háskóla Íslands en hann birti greinargerð sína á Vísi þar sem hann rekur málið eins og það horfir við honum. Ásgeir sendi Vísi yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem hann vísar því alfarið á bug að hann hafi stuðst við bók Bergsveins við ritun Eyjunnar hans Ingólfs. En víst er að ásakanirnar um plagíarisma hafa vakið mikla athygli, bæði almenna og þá ekki síður innan fræðasamfélagsins.