Íslenski boltinn

Barbára Sól komin heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Barbára Sól Gísladóttir handsalar samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss til tveggja ára en með henni er Jón Steindór Sveinsson formaður knattspyrnudeildarinnar.
Barbára Sól Gísladóttir handsalar samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss til tveggja ára en með henni er Jón Steindór Sveinsson formaður knattspyrnudeildarinnar. Instagram/@selfossfotbolti

Danmerkurævintýri Barbáru Sól Gísladóttur er á enda en hún er komin aftur heim til Íslands og hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss til tveggja ára.

Selfoss segir frá þessum flotta liðstyrk á heimasíðu sinni. Þar kemur fram að Barbára Sól hefði verið lánuð til danska úrvalsdeildarfélagsins Bröndby síðasta sumar og að danska liðið vildi hafa hana áfram í sínum röðum á næsta tímabili. Barbára valdi hins vegar að koma aftur heim á Selfoss.

„Það er gott að vera komin heim og er ég mjög spennt fyrir komandi tímabili með Selfoss. Margir nýir hlutir að gerast, frábær aðstaða í nýrri knattspyrnuhöll og nýr þjálfari sem er með mikla reynslu og virðist mjög spennandi. Ég sjálf kem reynslunni ríkari frá Bröndby og ætla að nýta mér hana til þess að koma liðinu mínu sem lengst í sumar,“ segir Barbára Sól.

Selfoss samdi við landsliðskonuna Sif Atladóttur í vikunni og er liðið því búið að styrkja sig verulega síðustu daga.

Barbára, sem er tvítug, hefur verið lykilmaður í liði Selfoss undanfarin fimm ár enda fjölhæfur leikmaður og sterk bæði í vörn og sókn. Hún hefur spilað 108 meistaraflokksleiki fyrir félagið og samtals 73 leiki í efstu deild á Íslandi og í Danmörku. Barbára spilaði sína fyrstu A-landsleiki á síðasta ári og á að baki á fjórða tug unglingalandsleikja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×