Bíó og sjónvarp

Leyni­lögga á lista stofnanda IMDb yfir faldar perlur ársins

Árni Sæberg skrifar
Leynilögga hefur hlotið mikið lof en ekki nóg, allavega að mati stofnanda IMDb.
Leynilögga hefur hlotið mikið lof en ekki nóg, allavega að mati stofnanda IMDb. Leynilögga

Col Needham, stofnandi og framkvæmdastjóri vefsíðunnar IMDb, birti í dag lista yfir þær myndir sem hann telur ekki hafa fengið þá viðurkenningu sem þær eiga skilið. Hin íslenska Leynilögga er ein þeirra.

Þó margir Íslendingar vilji meina að Leynilögga, kvikmynd Hannesar Þórs Halldórssonar, hafi farið sannkallaða sigurför um heiminn, telur stofnandi stærstu kvikmyndarýnivefsíðu heims að hún hafi ekki hlotið verðskuldað lof.

Leynilögga skipar þriðja sæti á lista Needham en hann tekur reyndar fram að listinn sé einfaldlega í stafrófsröð. Glöggir lesendur vita að bókstafurinn L er ekki sérstaklega framarlega í slíkri röð. 

Titli myndarinnar hefur verið snarað yfir á enska tungu og gengur hún undir nafninu Cop Secret á alþjóðavísu. Því vermir hún þriðja sætið.

Needham tekur fram að myndirnar hafa ekki allar farið í dreifingu um allan heim enn og því eygi þær enn von um að fá þá viðurkenningu sem þær eiga skilið.

Leynilögga hefur verið sýnd víða um heim, til að mynda í Japan, en margir kvikmyndamarkaðir eru henni enn sem óplægðir akrar. Því gæti farið svo að Needham felli hana af lista sínum.

Lista Needhams má lesa í heild sinni á IMDb.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×