Innherji

Rekstur sveitarfélaga ekki sjálfbær til lengri tíma litið

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Rekstrarafkoma sveitarfélaga hefur versnað yfir langt tímabil.
Rekstrarafkoma sveitarfélaga hefur versnað yfir langt tímabil. VÍSIR/VILHELM

Á röskum 40 árum, frá árinu 1980 til 2020, sýna gögn hagstofu að heildarafkoma sveitarfélaga hefur verið neikvæð í 33 ár og jákvæð í aðeins 8 ár, síðast árið 2007. Þetta kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárlagafrumvarpið.

„Hér er um að ræða mikilvæga vísbendingu um að rekstur sveitarfélaga sé ekki sjálfbær til lengri tíma litið,“ segir í umsögninni. „Árin sem skilað hafa jákvæðri heildarafkomu fyrir sveitarfélög einkennast af óhemju mikilli þenslu í íslenskum þjóðarbúskap.“

Rekstrarafkoma sveitarfélaga hefur versnað yfir langt tímabil en það hefur haft í för með sér að fjárfestinga geta þeirra hefur minnkað umtalsvert, að því er kemur fram í umsögninni, og fjárfestingar dregist saman sem hlutfall af landsframleiðslu.

Samkomulag á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og íslenska ríkisins miðar við að heildarafkoma sveitarfélaga batni úr því að nema -1,1 prósent af landsframleiðslu árið 2021 í -0,4 prósent árið 2026. Skuldir sveitarfélaga hækka á sama tímabili úr 6,9 prósent af landsframleiðslu í 8,5 prósent en samkomulag er um að skuldir hækki ekki frá 2026.

Í nýlegri úttekt Samtaka atvinnulífsins, sem Innherji greindi frá, var komist að þeirri afgerandi niðurstöðu að sveitarfélögum þyrfti að fækka hressilega. Borgarstjóri tók undir og sagði sveitarfélögin sum hver alltof veik til að standa undir lögbundinni þjónustu í náinni framtíð. Kjarkleysi pólítíkurinnar og íhaldssemi sumra minni sveitarfélaga standi nauðsynlegum sameiningum fyrir þrifum.

SA sögðu niðurgreiðslu skattgreiðenda á ósjálfbærum rekstri minni sveitarfélaga verða sífellt kostnaðarsamari.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×