Skoðun

Um sam­eigin­lega hags­muni

Pétur G. Markan skrifar

Ég spilaði einu sinni með vöskum varnarmanni sem átti það til að einblýna svo mikið á andstæðinginn að hann gleymdi stundum að passa markið sitt.

Mér datt þetta í hug þegar ég las grein sem átti að vera svargrein við grein sem ég skrifaði á föstudaginn. Greinin sem ég skrifaði fjallaði um innheimtu sóknargjalda, sem ríkið sinnir fyrir trúar- og lífsskoðunarfélög. Sóknargjöld sem drífa hið merkilega og mikilvæga starf áfram sem þessi félög sinna – íslensku samfélagi til ljóss, kærleika og lifandi menningar.

Það er nefnilega þannig að íslenska ríkið heldur eftir hluta þessara sóknargjalda og þrengir þannig að rekstri og starfi trúar- og lífsskoðunarfélaga. Nú nálgast ég málið út frá þjóðkirkjunni, sem hefur einstaka stöðu í íslensku samfélagi. Þjóðkirkjan rækir starf sem auðveldlega má flokka sem grunnþjónustu og grafalvarlegt er að þrengja að – hvað þá halda eftir lögmætum tekjum sem fólkið í landinu velur að greiða til kirkjunnar – og sækir vandaða þjónustu á móti.

En þegar kemur að skerðingu sóknargjalda er þjóðkirkjan að glíma sömu glímu og önnur trúar- og lífsskoðunarfélög. Réttlát leiðrétting eins og krafa þjóðkirkjunnar er myndi ná yfir öll félög – ekki bara þjóðkirkjuna. Hvað annað?

Það er tákn um frjálsari og betri tíma að fólk hafi fleiri valkosti þegar kemur að því að sækja þjónustu og greiða sóknargjöld. Ný veröld sem mun efla og styrkja þjóðkirkjuna. Þannig rís Kristur upp við hverja áskorun og fagnaðarerindið lifir áfram.

Greinin mín á föstudaginn snérist um þá óréttlátu meðferð ríkisins á tekjum trúar- og lífsskoðunarfélaga. Það eru miklir hagsmunir í húfi og mikilvægt fyrir alla haghafa að standa saman. Jafnvel standa í skjóli þess stærsta. Í það minnsta passa markið sitt.

Höfundur er biskupsritari.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×