Þórhildur Gyða kærði umdælda Facebook-færslu Sigurðar til Lögmannafélags Íslands en í færslunn birti hann myndir úr lögregluskýrslu hennar. Um var að ræða lögregluskýrslu vegna árásar sem hún varð fyrir af hendi knattspyrnumannsins Kolbeins Sigþórssonar á skemmtistað haustið 2017.
Samkvæmt úrskurði nefndarinnar mátu Þórhildur Gyða og lögmaður hennar svo að með færslunni hafi Sigurður verið að gæta hagsmuna Kolbeins og KSÍ en hann hefur lengi starfað í nefndum innan knattspyrnusambandsins. Þá sé Sigurður jafnframt í stjórn í Bakarameistarans, sem er í eigu fjölskyldu Kolbeins. Krafðist Þórhildur þess að Sigurður yrði áminntur fyrir skrifin en Sigurður að málinu yrði vísað frá.
Þá skrifaði Sigurður í greinagerð sem hann sendi úrskurðarnefndinni að Lögmannafélagið væri skylduaðildafélag og hefði það ekkert boð- eða refsivald yfir honum nema vegna þeirra mála sem hann sinnti sem lögmaður. Félagið gæti ekki heft tjáningarfrelsi hans um málefni líðandi stundar. Auk þess væri hann sjálfboðaliði í þeim nefndum og stjórnum sem hann sæti í, Bakarameistarinn væri til að mynda ekki vinnuveitandi hans eins og segði í kærunni.
Segir í úrskurði nefndarinnar að á grundvelli málsgagnanna sem lægju fyrir hafi ekki verið hægt að slá föstu að Sigurður hafi verið í hagsmunagæslu fyrir Kolbein eða KSÍ þegar hann birti skrifin. Jafnframt hafi hann ekki gengt neinni stöðu í sakamálinu sjálfu. Hann teldist því ekki hafa skrifað færsluna í starfi sínu sem lögmaður. Málinu var því vísað frá nefndinni.