Innherji

Bjarni um sölu Íslandsbanka: „Það munar um þessar fjárhæðir þegar ríkið þarf að fjármagna hallarekstur“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Bjarni segir áframhaldandi sölu mikilvæga, bæði fyrir skuldastýringu ríkissjóðs og fyrir hlutabréfamarkaðinn.
Bjarni segir áframhaldandi sölu mikilvæga, bæði fyrir skuldastýringu ríkissjóðs og fyrir hlutabréfamarkaðinn. Mynd/Hulda Margrét Óladóttir

„Ég lagði mikla áherslu á að fá þetta í gegn og þegar við loksins tókum ákvörðun um að láta til skara skríða var tímaramminn þröngur. Það er langt því frá sjálfsagt mál að svona vel takist til,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Sala ríkissjóðs á 35 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka voru viðskipti ársins að mati dómnefndar Innherja en verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í gær á Hilton Nordica. Bjarni tók við verðlaununum ásamt Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra Bankasýslu ríkisins.

Sala á bankanum í gegnum almennt hlutafjárútboð og skráningu í Kauphöll skilaði ríkissjóði meira en 55 milljörðum króna á tímum þegar fjárþörfin var hvað mest.

„Við lögðumst í talsverða undirbúningsvinnu þar sem meðal annars var reynt að finna sanngjarnt verð fyrir banka sem var að koma nýr inn á markað og ég held að það hafi tekist vel til,“ segir Bjarni.

„Eftir stendur ríkið með eignarhlut sem er jafnmikils virði og allur eignarhluturinn var í upphafi árs,“ bætir hann við. Þegar útboðið fór fram var Íslandsbanki í heild sinni verðmetinn á um 157 milljarða króna en jákvæð þróun á gengi hlutabréfa bankans þýðir að virði 65 prósenta eignarhluts ríkissjóðs nemur nú um 157 milljörðum.

Eftirstandandi eignarhlutur verður seldur að fullu á næstu tveimur árum samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2022 sem var á dögunum lagt fyrir Alþingi. Bjarni segir áframhaldandi sölu mikilvæga, bæði fyrir skuldastýringu ríkissjóðs og fyrir hlutabréfamarkaðinn.

„Við erum sammála um að taka eitt skref í einu og erum að hefja samtal við Bankasýsluna um aðferðafræðina sem kæmi til greina,“ segir Bjarni. „En við erum núna í allt annarri stöðu sem kallar ekki á jafn mikinn undirbúning eða samráð.“

Innherji greindi nýlega frá því að Bankasýslunni væri heimilt að selja hlutabréf sín í bankanum hvort heldur sem er á opnum markaði eða í gegnum lokað útboð til fagfjárfesta hvenær sem er eftir að tímabili sölubanns lýkur síðar í þessum mánuði.

Þá mun stofnunin leitast við að haga sérhverri slíkri sölu í samræmi við venjubundna háttsemi á skipulögðum markaði, að því er kemur fram nýjum uppfærðum samningi á milli Bankasýslu ríkisins og Íslandsbanka.

Bjarni segir ánægjulegt að sjá hvernig hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi hafi gagnast ríkinu og öðrum sem hafa skráð fyrirtæki á markað á undanförnum árum til að auka virði eigna. „Við höfum viljað trúað því að með því að hafa fyrirtæki undirorpin þeim lögum og reglum sem fylgja skráningu sé hægt að auka virði fyrir eigendurna. Það virðist hafa skilað sínu.“

Ríkissjóður ekki eins háður lánamörkuðum

Metþáttaka almennra fjárfesta í hlutafjárútboðinu skilaði sér í því að Íslandsbanki er í dag með fjölmennasta hluthafahóp allra skráðra félaga í Kauphöllinni. Ein ástæðan fyrir metþátttöku í útboðinu var sú að lágmarksupphæðin sem almennir fjárfestar gátu skráð sig fyrir, 50 þúsund krónur, hefur aldrei verið eins lág í hlutafjárútboðum eftir fjármálahrunið. Þá voru tilboð undir einni milljón króna ekki skert en fjársterkir einkafjárfestar og fagfjárfestar máttu þola töluverðar skerðingar.

„Við stigum skref til að láta sérreglur gilda fyrir almenna fjárfesta. Ég held að það hafi mælst vel fyrir. Það var sjálfstætt markmið að tryggja að hinn almenni fjárfestir sæi í verki að við ætluðum að leggja okkur fram við að fá fólk til þátttöku,“ segir Bjarni.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og Bjarni Benediktsson á verðlaunahátíðinni í gær.Mynd/Hulda Margrét Óladóttir

Hlutafjárútboðið var ein helsta ástæðan fyrir því að skuldastaða ríkissjóðs er betri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Í forsendum fjárlagafrumvarps ráðherra kom meðal annars fram að fyrirhuguð frekari sala á hlutum í Íslandsbanka á næsta ári væri mikilvægur þáttur í virkri stýringu á efnahag ríkisins. Með sölunni væri hægt að auka sjóðstreymi til ríkisins, minnka lánsfjárþörf og auka rými til fjárfestinga í samfélagslega arðbærum verkefnum þrátt fyrir hallarekstur.

„Það munar um þessar fjárhæðir þegar ríkið þarf að fjármagna hallarekstur. Ég tel að þetta styðji okkur ekki bara í því að lækka skuldirnar heldur einnig í því að vera ekki eins háð lánamörkuðum þegar kemur að langtímaáformum,“ segir Bjarni.

„Skólabókardæmi“ um vel heppnaða einkavæðingu

Í rökstuðningi dómnefndar Innherja var meðal annars nefnt að um væri að ræða alþjóðlegt ferli við stærstu nýskráningu sögunnar í Kauphöll Íslands og að hlutafjárútboðið hefði skilað mestri þátttöku almennings í útboði hér á landi frá fjármálakreppu. Þá hefði útboðið laðaði að erlenda fjárfesta í áður „óþekktum mæli“.

„Íslenska ríkið náði öllum markmiðum sínum í verkefninu,“ sagði einn dómnefndarmaður.

Annar sagði hlutafjárútboðið vera „skólabókardæmi um vel heppnaða einkavæðingu, svo mjög að ekki var vikið gagnrýnisorði að henni í kosningabaráttunni í haust.“

Í byrjun árs, þegar ljóst var að eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka yrði boðinn út, voru áformin gagnrýnd af þingmönnum í stjórnarandstöðunni, einkum Samfylkingunni, og sérfræðingum sem töldu óheppilegt að selja bankann á „undirverði“ í djúpri efnahagslægð.

„Þrátt fyrir stanslausar úrtölur og svartsýnisraus fór salan fram úr björtustu vonum, færði ríkinu gríðarlega fjármuni, og á eftir að gera það á næstu misserum þegar meira verður selt.“ 

Metþátttaka almennings var oft nefnd í rökstuðningi dómnefndarmanna. „Vel heppnað útboð þar sem almenningi var gefin kostur á að fjárfesta í nokkurs konar forgangi. Stórt skref í þá átt að endurreisa traust almennings á hlutabréfa mörkuðum eftir fjármálaáfallið.“

„Stór viðskipti sem vandað var til á öllum stigum og gengu vonum framar,“ sagði annar. „Eins og gildir um öll góð viðskipti þá eru allir glaðir. Kaupendur sem hafa selt hafa innleyst hagnað og kaupendur sem ekki hafa þegar selt geta glaðst yfir 50 prósenta ávöxtun á innan við hálfu ári. Seljandinn getur líka glaðst því hann á enn eftir 65 prósenta hlut sem hefur aukist að verðmæti um yfir 40 milljarða króna.“

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×