Erlent

Mæla með notkun annarra bóluefna fram yfir efnið frá Johnson & Johnson

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hér á landi er talað um bóluefnið frá Janssen en um er að ræða sama efnið; Janssen er dótturyfirtæki Johnson & Johnson.
Hér á landi er talað um bóluefnið frá Janssen en um er að ræða sama efnið; Janssen er dótturyfirtæki Johnson & Johnson. epa/Etienne Laurent

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur ráðlagt notkun annarra bóluefna fram yfir bóluefnið frá Johnson & Johnson vegna blóðsegavandamála, sem eru talin hafa valdið níu dauðsföllum í Bandaríkjunum.

Um er að ræða sama bóluefnið sem hérlendis hefur verið kennt við Janssen, sem er lyfjafyrirtæki í eigu Johnson & Johnson.

Ráðleggingarnar byggja á áliti ráðgjafanefndar sem í raun gaf út tilmæli til þeirra sem sjá um bólusetningar og fullorðinna einstaklinga sem hyggjast láta bólusetja sig, að notast ekki við bóluefnið frá Johnson & Johnson.

Tilmælin byggja á nýjum gögnum sem benda til þess að blóðsegavandamál tengd bóluefninu séu tíðari en áður var talið en áhættan er mest á meðal kvenna á aldrinum 30 til 49 ára, þar sem ætlað er að ein af hverjum 100 þúsund sem fengið hafa bóluefnið hafi þjáðst af aukaverkuninni.

Samkvæmt frétt New York Times verður bóluefnið ekki tekið af markaði heldur verður það enn í boði fyrir þá sem geta ekki eða vilja ekki þiggja önnur bóluefni. 

Um 16 milljón Bandaríkjamenn voru upphaflega bólusettir með bóluefninu frá Johnson & Johnson, sem var gefið í einum skammti. 73 milljónir voru hins vegar bólusettar með bóluefninu frá Moderna og 114 milljónir með bóluefninu frá Pfizer.

Bóluefnið frá Janssen er enn í notkun hérlendis.

Hér má finna umfjöllun New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×