Erlent

Meira en tíu þúsund ó­míkron-smitaðir í Bret­landi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mörg Evrópulönd hafa gripið til hertra sóttvarnaraðgerða að undanförnu.
Mörg Evrópulönd hafa gripið til hertra sóttvarnaraðgerða að undanförnu. EPA/Rain

Enn eru met slegin í fjölda kórónu­veiru­smita í Bret­landi. Borgar­stjóri Lundúna hefur nú lýst yfir alvarlegu ástandi (e. major incident). Yfir 93.000 manns greindust með kórónu­veiruna í Bret­landi landi í gær og fjöldi ó­míkron-smitaðra er kominn upp í tíu þúsund.

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, segist hafa miklar áhyggjur af stöðu mála í borginni. Aukinn fjöldi smita hafi áhrif á starfsemi borgarinnar og innlagnir á spítala aukast. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

„Stóra vandamálið er fjöldi smita meðal íbúa Lúndúna, enda valda smitin forföllum meðal starfsmanna og rýrir möguleika okkar á því að halda uppi nauðsynlegri opinberri starfsemi,“ segir borgarstjórinn.

Khan segist þess vegna hafa tekið þá ákvörðun að lýsa yfir „alvarlegu ástandi“ til þess að undirstrika, hve alvarleg staðan er í raun. Nýjustu gögn sýni að rúmlega fimmtán hundruð manns séu á spítölum í borginni vegna kórónuveirunnar. Stjórnvöld í Bretlandi hafa einnig verið vöruð við því að fjöldi spítalainnlagna geti orðið allt að þrjú þúsund á dag, verði ekki gripið til harðari takmarkana.

Hvert Evrópuríkið á fætur öðru grípur til hertari sóttvarðaaðgerða fyrir jólin vegna útbreiðslu ómíkron afbrigðis kórónuveirunnar, en Frakkar hafa meðal annars hert á sóttvarnaskilyrðum fyrir fólk sem kemur frá Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×