Skoðun

Konur sem elska karl­menn

Elín Jósepsdóttir skrifar

Við lifum á mögnuðum tímum. Jafnrétti kynjanna eru mikilvægt málefni í hugum flestra. Lög okkar og reglur gera ráð fyrir því að veita konum og öðrum kynjum sérstakt aðhald og rétta það misrétti sem hefur verið til staðar öldum saman. Karlar eru ekki þungamiðja alheimsins lengur. Konur geta orðið læknar, sjómenn, bifvélavirkjar, formenn, geimkönnuðir, vísindamenn, þingmenn og jafnvel forsetar. Þolendur hafa stigið upp úr holunum sínum og skilað skömminni. Konur hafa loksins fengið viðurkenningu á því að þær hafa verið níddar, beittar ofbeldi og þeim haldið niðri af körlum síðan mannkynið varð til. Það er að verða almenn vitneskja að konur og önnur kyn eru og hafa alltaf verið í lægri stöðu en karlar.

En þó eru alltaf einhverjir sem berjast á móti og gera það að verkum að kerfið breytist hægt. Fólk sem heldur því fram að gagnrýni okkar sem berjumst gegn kynjamisrétti og ofbeldi sé ofbeldi. Fólk sem æpir um "dómstól götunnar" og slaufunarmenningu og segir að við verðum að treysta á löggjöf, dómstóla og kerfi sem er mölbrotið og ævagamalt. Fólk sem heldur því fram að konur tali um ofbeldi af illmennskunni einni saman og að konur sem tali um ofbeldi séu sjálfar sekar um ofbeldi. Karlar sem halda því fram að þeir séu allt í einu minnihlutahópur, af því að þeir njóta ekki lengur allra þeirra forréttinda sem þeir hafa haft öldum saman. Karlar sem vilja halda áfram að beita konur ofbeldi. Karlar sem vilja ekki sleppa völdunum og skilja ekki af hverju heimurinn snýst ekki lengur um þá. Fólk sem heldur að þetta eigi að vera svona.

Ég á tvo bræður. Ég á kærasta, pabba, afa og fullt af frændum. Svo á ég fullt af karlkyns vinum. Þó ég ætli ekki að fullyrða að þeir sé allir fullkomnir get ég samt sagt að mér þykir vænt um þá alla. Þeir eru allir yndislegir og góðir menn og þess vegna veit ég að karlmenn geta betur en það sem þeir hafa gert öldum saman. Ég veit þeir geta komið fram við aðra af virðingu, ég veit þeir geta tekið ábyrgð á gjörðum sínum, ég veit þeir geta verið ljúfir og mjúkir, ég veit þeir geta sleppt því að beita ofbeldi, ég veit þeir geta séð það misrétti kynjanna sem er til staðar og ég veit að þeir eru það sem karlmenn eiga að vera. Og þess vegna er ég femínisti. Af því að ég elska karlmenn. Af því að ég trúi og veit að ofbeldi er ekki normið. Þess vegna berst ég gegn kynbundnu ofbeldi. Ég trúi og veit að karlmenn eru ekki allir ofbeldismenn. Ég trúi því að aðrir karlmenn geti betur og ég trúi því að við getum útrýmt kynbundnu ofbeldi og jafnað rétt kynjanna að fullu. En til þess þurfa öll að taka saman okkur saman í andlitinu, hlusta á konur og trúa að karlmenn geti gert betur.

Gleðilega hátíð!

Höfundur er meistaranemi í klínískri barnasálfræði.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×