Innherji

Eftirlitsstjórar segja evrópska reglufarganið byrgja þeim sýn á áhættu í bankakerfinu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Evrópusambandið hefur gefið úr fleiri en 80 tilskipanir sem lúta að fjármálakerfinu.
Evrópusambandið hefur gefið úr fleiri en 80 tilskipanir sem lúta að fjármálakerfinu. Fredrik von Erichsen/Getty Images

Evrópska fjármálaregluverkið er orðið svo flókið og þungt í framfylgd að það getur hamlað eftirlitsstofnunum frá því að sjá raunverulega áhættu byggjast upp í bankakerfinu. Þetta segja forstjórar fjármálaeftirlitsstofnana Noregs og Danmerkur í samtali við Financial Times.

„Fjármálahrunið réttlætti meira flækjustig svo að fjarlægja mætti glufur í regluverkinu og takast á við samtvinnun fjármálastofnana,“ segir Morten Baltzersen, forstjóri norska fjármálaeftirlitsins. „Síðan þá hefur pendúllin sveiflast of mikið í þessa átt.“

Jesper Berg, forstjóri danska fjármálaeftirlitsins, tekur í sama streng: „Þetta er of mikið og það er hætta á því að maður týnist í smáatriðunum frekar en að hugsa um hverjar raunverulegu áhætturnar eru.“

Í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 var fjármálaregluverkið tekið í gegn, einkum með innleiðingu á Basel III regluverkinu sem fól í sér verulega hækkun á eiginfjáraukum banka. Nýjasta útgáfa Basel III er 1.626 blaðsíður að lengd.

Evrópusambandið hefur gefið úr fleiri en 80 tilskipanir sem lúta að fjármálakerfinu. Baltzeren, sem hefur stýrt norsku eftirlitsstofnuninni frá árinu 2011, segir að flóknar reglur um bankakerfi þýði að eftirlitsstofnanir hafi sífellt minni burði til að sinna eftirliti vegna þess að þær þurfi að verja svo miklum tíma í að eiga við regluverkið.

Berg segir að danska eftirlitsstofnunin, sem hefur 400 starfsmenn á sínum snærum, geti ekki haft umsjón með innleiðingu á flóknu Evrópuregluverki samhliða því að sinna grunnskyldu sinni, þ.e. að standa vörð um danska fjármálakerfi, með fullnægjandi hætti.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×