Notendur samfélagsmiðilsins Twitter voru gáttaðir á bílaþvottaæði landsmanna og veltu því fyrir sér hvort að bílaeigendum væri óhugsandi að halda gleðileg jól án þess að hafa bílinn tandurhreinan.
Ég mun aldrei skilja sturluðu röðina í Löður daganna fyrir jól og þá þörf að geta ekki haldið hátíðarnar nema vera búinn að baða bílinn. En dæmi ekkert samt. Gerið það sem gleður. pic.twitter.com/oQC7gWy5dA
— Þórður Snær Júlíusson (@thordursnaer) December 23, 2021
Elísabet Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Löðurs, segir að landsmenn telji ekki nóg að þrífa allt hátt og lágt heima fyrir. Margir bílaeigendur virðist einnig telja óhugsandi að hafa bílinn grútskítugan úti í stæði á aðfangadag og drífi sig því með hann í þvott. Hún segir að einhverjir virðist jafnvel hafa bílaþvott inni í sjálfri jólarútínunni.
„Við erum með rosa langar raðir og fimmtíu bíla í röð en þetta gengur voða hratt fyrir sig. Við getum, eins og niðri á Fiskislóð, tekið 72 bíla á klukkustund,“ og bætir við að starfsfólkið sé á fullu þessa dagana: „Þetta er alltaf svona fyrir jólin. Við erum bara ótrúlega heppin, starfsfólkið er voðalega ánægt og allir kátir. Þetta er bara rosalega gaman,“ segir Elísabet.
