Umræðan

Viðspyrnuárið 2022?

Jóhannes Þór Skúlason skrifar

Viðskipti við útlönd eru undirstaða lífskjara á Íslandi. Þannig hefur það verið frá því að samfélagið tók að þróast hratt í átt að nútímanum upp úr miðri 20. öldinni. Hernámið flutti með sér erlent fé, ný verðmæti, inn í landið í meiri mæli en áður hafði þekkst og því fylgdi lífskjarabót fyrir almenning sem lyfti Íslandi loks upp úr þrengingum heimskreppunnar.

Eftir stríð flutti Marshall aðstoðin nýja erlenda peninga inn í landið sem voru skynsamlega notaðir til að byggja upp atvinnu- og framleiðslutæki, sem lögðu grunninn að víðtækri uppbyggingu í atvinnulífi. Á síðari áratugum 20. aldar var erlend fjárfesting svo mikilvæg innspýting í atvinnulíf og nýsköpun. Nýtt erlent fé inn í landið studdi þar við uppbyggingu og öflun útflutningstekna fyrir samfélagið.

Af sömu ástæðum er ferðaþjónustan mikilvæg fyrir allt samfélagið. Hún var Marshall aðstoð samfélagsins eftir bankahrunið, atvinnugrein sem óx ótrúlega á skömmum tíma og færði gríðarleg ný verðmæti inn í samfélagið, skapaði á 10 árum þriðjung allra nýrra starfa í landinu (þar af annað hvert starf sem varð til á landsbyggðinni), tryggði stöðugleika með áralöngum samfellt jákvæðum vöru- og þjónustujöfnuði í fyrsta sinn í Íslandssögunni og gerði fordæmalausa kaupmáttaraukningu og lífskjarabót mögulega.

Mikilvægi eldri og rótgrónari útflutningsatvinnugreina minnkaði ekki en með nýrri stoð ferðaþjónustunnar studdu þær allar hver aðra og bjuggu til umhverfi sem þýddi að hægt var að fara að huga að uppbyggingu fjórðu stoðarinnar í alvöru, nýsköpun í hugverkaiðnaði.

Er Ísland eitthvað spes?

Svo kom áfall, heimsfaraldur sem braut niður þessa atvinnugrein á heimsgrundvelli. Alls staðar í heiminum er ferðaþjónusta í fordæmalausum erfiðleikum. Það er mikilvægt að muna að þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Í Evrópusambandinu störfuðu 26 milljónir manna að ferðaþjónustu fyrir faraldurinn, eitt af hverjum tíu störfum. Verðmætin sem hafa tapast í álfunni eru gríðarleg.

Íslensk ferðaþjónusta er mikilvægari fyrir samfélagið en í mörgum öðrum ríkjum þar sem að þetta stóra hlutfall erlendra gesta þýðir að miklu stærri hluti verðmætanna er nýtt erlent fé.

Stundum er sagt að hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu hér á Íslandi sé óvenjulega hátt, jafnvel of hátt segja sumir. Það er vissulega hátt en samt bara svipað og í Þýskalandi og um það bil í miðgildinu samanborið við ríki Evrópusambandsins. Það er ágætt að hafa það í huga, því að það segir okkur að þótt vöxturinn hafi verið hraður er Ísland ekkert sértækt dæmi, ekkert öðruvísi en önnur Evrópuríki í raun.

Nema á einn hátt. Við erum lítið samfélag á stórri eyju. Íslensk ferðaþjónusta treystir því nær algerlega á flugsamgöngur og á erlendan markað. Það er ekki hægt að keyra yfir landamærin, eins og til dæmis Þjóðverjar gerðu í sumar til Króatíu og fleiri landa við Miðjarðarhaf. Og innanlandsmarkaðurinn okkar er of lítill til að fylla upp í gatið sem skapast þegar erlendi markaðurinn hverfur, þótt hann sé okkur mikilvægur og afskaplega vel þeginn. Við erum bara svo fá.

En þetta þýðir líka að íslensk ferðaþjónusta er mikilvægari fyrir samfélagið en í mörgum öðrum ríkjum þar sem að þetta stóra hlutfall erlendra gesta þýðir að miklu stærri hluti verðmætanna er nýtt erlent fé, ný verðmæti inn í samfélagið sem styðja við lífskjör þjóðarinnar.

Við erum á leið inn í vetrarmánuði þar sem ótti og ferðahindranir voma yfir enn á ný og enginn getur í raun spáð fyrir um það hvernig það þróast, segir framkvæmdastjóri SAF.Vísir/Vilhelm

Góðar fréttir og vondar

Margt gekk betur á árinu sem er að líða en við vonuðumst til. Samkvæmt nýkynntri könnun Ferðamálastofu segjast fleiri fyrirtæki standa betur en von var á, fleiri fyrirtæki hafa náð að hefja greiðslu frystra lána hjá fjármálastofnunum en von var á og fleiri hafa ákveðið að taka slaginn og halda ráðningarsambandi við starfsfólk yfir veturinn en von var á. Þetta er allt afskaplega jákvætt. Upphaf ferðaþjónustuársins 2022 er hins vegar lævi blandið.

Við héldum að á þessum tímapunkti yrðum við mögulega komin á þann stað að geta horft fram til betri tíma þar sem ferðavilji væri risinn upp á ný og fyrirtækin gætu hafið viðspyrnuna af krafti inn í háönnina 2022. Spá fjárlagafrumvarpsins um 1,4 milljónir ferðamanna á árinu er skýrt merki um þessar væntingar. Nú er hins vegar mikil óvissa framundan enn á ný. Við erum á leið inn í vetrarmánuði þar sem ótti og ferðahindranir voma yfir enn á ný og enginn getur í raun spáð fyrir um það hvernig það þróast.

Úrræði eins og ráðningarstyrkir og viðspyrnustyrkir eru runnir sitt skeið eða hafa verið fullnýtt og fyrirtækin þurfa nú enn og aftur að meta hvort tekjur síðasta sumars duga til að gera allt þrennt; þjónusta uppsafnaðar skuldir, greiða fastan kostnað og halda fólki í vinnu fram á sumar. Því miður er ljóst hvað mun fyrst þurfa undan að láta ef svarið er nei. Launakostnaður fyrirtækja er einfaldlega stærsti útgjaldaliðurinn og því munu fyrirtæki neyðast til að segja upp fólki enn á ný ef reksturinn ber ekki alla þessa þrjá liði vegna óvissunnar og niðursveiflunnar sem henni fylgir.

Fleiri fyrirtæki standa betur en von var á, fleiri fyrirtæki hafa náð að hefja greiðslu frystra lána hjá fjármálastofnunum en von var á og fleiri hafa ákveðið að taka slaginn og halda ráðningarsambandi við starfsfólk yfir veturinn en von var á.

Síðustu vikur hef ég fengið fjölda símtala frá félagsmönnum Samtaka ferðaþjónustunnar sem leita ráða og spyrjast fyrir um hvort talið sé að aðgerðir stjórnvalda verði framlengdar í ljósi stöðunnar. Öll eiga þau sameiginlegt að hafa ákveðið að taka slaginn og halda fólkinu sínu í vinnu, að minnsta kosti eins mörgum og mögulegt var, þrátt fyrir að það væri óöruggt veðmál inn í sumarið og þrátt fyrir að þau vissu að það myndi brenna upp því litla eigin fé sem til væri í fyrirtækinu eftir sumarið. Nú lítur út fyrir að þau standi mörg frammi fyrir sárri endurskoðun þeirrar ákvörðunar ef svo heldur fram sem horfir.

Kjarasamningar verða að taka mið af stöðu ferðaþjónustunnar

Framundan á árinu lúra svo kjarasamningaviðræður eins og tímasprengja. Þar verða aðilar vinnumarkaðarins að ná saman um að láta samningana taka skynsamlegt mið af stöðunni. Það er algerlega ljóst að það er ekkert svigrúm til launahækkana í ferðaþjónustu. Þar þarf miklu fremur að nýta tækifærið til að breyta skipulagi og þáttum sem lengi hafa verið í allt öðrum takti í löndunum sem við berum okkur saman við, eins og yfirvinnutími og álagsgreiðslur.

Ferðaþjónustufyrirtæki eiga það sameiginlegt að nær öll hafa þau fólk í vaktavinnu að einhverjum eða miklum hluta. Það eru því sameiginlegir hagsmunir fyrirtækja innan SAF að aðilar vinnumarkaðarins skoði það af alvöru hvernig má færa slíka hluti nær því sem gerist í nágrannalöndum. Það væri skynsamleg og mikilvæg þróun á íslenskum vinnumarkaði, ekki síst fyrir atvinnugrein í harðri alþjóðlegri samkeppni.

Verðmætasköpunaraflið er grundvöllur lífskjara okkar allra

Á endanum er það nefnilega samfélagið allt sem græðir á hraðri viðspyrnu ferðaþjónustunnar. Þar skiptir innihald kjarasamninga og góð samskipti á vinnumarkaði ekki síður máli fyrir hraða viðspyrnu en þær tillögur að aðgerðum sem lagðar eru fram á http://vidspyrnan.is. Þegar öllu er á botninn hvolft tengist þetta nefnilega allt saman og snýst um það hvernig við búum til verðmæti til að tryggja jákvæða þróun kaupmáttar og lífskjara okkar allra sem búum á þessari stórkostlegu ævintýraeyju.

Framundan á árinu lúra svo kjarasamningaviðræður eins og tímasprengja. Þar verða aðilar vinnumarkaðarins að ná saman um að láta samningana taka skynsamlegt mið af stöðunni.

Hvernig við styrkjum leiðirnar til að færa nýtt erlent fé inn í landið á nýrri öld, og búum í haginn fyrir útflutningsgreinarnar sem sækja erlend verðmæti fyrir samfélagið. Þar mun ferðaþjónustan aftur verða grundvallaratvinnugrein því að eyjan okkar mun áfram búa yfir kynngimögnuðum krafti til að laða að sér erlenda gesti.

Sú endurkoma – viðspyrna ferðaþjónustunnar og uppbygging efnahagslífs landsins á ný – þarf að hefjast fyrir alvöru árinu 2022. Hversu hröð hún verður og hversu vel tekst að minnka kostnaðinn af faraldrinum og auka verðmætasköpunina og undirbyggja áframhaldandi góð lífskjör í landinu ræðst af því hvernig haldið verður á spilunum í ýmsum lykilverkefnum á árinu, t.d. í fjármálaáætlun, í fjárlögum og kjarasamningum. Til að vitna í óþarflega kunnuglegan frasa þá er þetta ekki (alveg) búið. Óvissan er mikil og aðgerða er þörf - en tækifærin eru sannarlega framundan.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustarinnar.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Umræðan

Sjá meira


×