Nú þegar áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um ólögmætt verðsamráð Eimskipa og Samskipa velta eflaust margir viðskiptavina félaganna fyrir sér hvort unnt sé að sækja skaðabætur til þeirra vegna þessarar ólögmætu háttsemi.
Í evrópskum samkeppnisrétti hefur hin síðari ár átt sér stað mikil þróun að því er varðar mat á því hvenær brot gegn samkeppnislögum telst ólögmæt háttsemi í skilningi skaðabótaréttar en ekki síður að því er varðar hvernig meta skuli tjón þess sem verður fyrir slíkri háttsemi. Í Evrópusambandinu var á árinu 2014 samþykkt tilskipun sem samræma átti að vissu marki reglur aðildarríkjanna bæði um sönnun á skaðsemi og útreikninga tjóns, stundum nefnd Skaðabótatilskipunin. Tilskipunin hefur hins vegar ekki enn verið tekin upp í EES samninginn og gildir því hvorki hér á landi eða í hinum EFTA ríkjunum.
Þess vegna er fróðlegt að horfa til nýlegs dóms Borgarting lagmannsrett í Noregi í máli sem varðaði ákvörðun skaðabóta vegna ólögmæts samráðs. Mál þetta varðaði samráð vöru- og flutningabílaframleiðenda í Evrópu sem hafði verið til umfjöllunar hjá Framkvæmdastjórn ESB og lokið með sátt nokkurra málsaðila annars vegar og ákvörðun er beindist að öðrum hins vegar. Meðal viðskiptavina framleiðendanna var Posten í Noregi sem höfðaði skaðabótamál byggt á því að fyrirtækið hefði greitt of hátt verð fyrir flutningabíla vegna samráðsins.
Fróðlegt er að horfa til nýlegs dóms Borgarting lagmannsrett í Noregi í máli sem varðaði ákvörðun skaðabóta vegna ólögmæts samráðs.
Í þessum dómi Borgarting lagmannsrett er ítarlega farið yfir sönnun hinnar ólögmætu háttsemi og hvernig styðjast megi við ákvarðanir samkeppnisyfirvalda í þeim tilgangi. Þá er einnig farið yfir aðferðir til að sanna tjón, einkum hvernig beita skuli svonefndri samanburðaraðferð í framkvæmd og að hvaða marki verði að taka tillit til óvissu við útreikninga. Borgarting lagmannsrett slær því einnig föstu að tjónþoli eigi í svona málum rétt á bótum vegna missis fjármagnstekna þar sem að fjármagn sem fór í að borga yfirverð fyrir vöru eða þjónustu hefði getað verið nýtt til fjárfestinga og ávöxtunar. Að lokum má nefna að dómurinn fjallar einnig um ábyrgð innan samstæðu vegna samkeppnislagabrots, þ.e. þegar annað hvort dóttur- eða móðurfélag hefur tekið þátt í hinni ólögmætu háttsemi.
Segja má að rannsókn íslenskra samkeppnisyfirvalda á ólögmætu samráði Eimskipa og Samskipa hafi lokið í vikunni með því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gagnvart Samskipum. Nú ætti því þeim viðskiptavinum félaganna sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna verðsamráðsins ekki að vera neitt að vanbúnaði að sækja til þeirra bætur vegna háttseminnar. Það er hins vegar að ýmsu að huga þegar kemur að framsetningu krafna og þá ekki síst sönnun tjóns um umfangs þess.
Höfundur er lögmaður og einn eigenda hjá ADVEL lögmönnum.