Þetta kemur fram í grein sem þau Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og Sigrún Sigurðardóttir, dósent við HA og stjórnarkona í Geðhjálp, rita og birtist á Vísi nú fyrir stundu.
Þar er varpað fram þeirri spurningu hvað valdi því að við sem samfélag tökum faraldurinn svo traustum tökum og raun ber vitni en látum þessa staðreynd sem áður er nefnd hjá líða.
„Engir upplýsingafundir hafa verið haldnir, fá minnisblöð skrifuð, ekki efnt til markvissra mótvægisaðgerða né samfélagið stöðvað til þess að fyrirbyggja þau dauðsföll,“ segir í greininni.
Covid-faraldurinn sé vissulega erfiður viðureignar og áskorun fyrir heilbrigðiskerfið en:
„30 af þeim 37 sem hafa látist af völdum Covid voru eldri en 70 ára, 20 eldri en 80 ára og þrír yngri en 60 ára. Til samanburðar voru 35 af þeim 47 sem tóku eigið líf árið 2020 yngri en 60 ára. 17 voru yngri en 29 ára og þrír yngri en 18 ára.“

Grímur Atlason segist í samtali við Vísi ekki í nokkrum vafa um að þær aðgerðir sem hefur verið gripið til vegna Covid-faraldursins hafi haft neikvæð áhrif á geðheilsu fjölmargra og ekki þá síst þeirra sem yngri eru. Sem sé umhugsunarefni.
„Ég er ekki að segja að það eigi ekki að bregðast við Covid-faraldrinum. En hins vegar verðum við að grípa til mótvægisaðgerða vegna geðheilsu þjóðarinnar sem ætti í raun að vera forgangsatriði rétt eins og það að setja fjármuni í efnahagslífið. Einangrun, óvissa, ótti … allt getur þetta stuðlað að eða ýtt undir geðrænar áskoranir. Og við því verðum við að bregðast. Mótvægisaðgerðirnar hafa verið svo takmarkaðar,“ segir Grímur.
