Handbolti

Alfreð afar hrifinn af Klopp og segir hann fylla sig innblæstri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tveir stórir. Alfreð Gíslason og Jürgen Klopp.
Tveir stórir. Alfreð Gíslason og Jürgen Klopp. getty/Martin Rose/john powell

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta, er afar hrifinn af Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, og segir að hann hafi haft mikil áhrif á sig.

Þrátt fyrir að Alfreð hafi þjálfað í þrjá áratugi og samfellt í Þýskalandi síðan 1997 er hann enn tilbúinn að læra og hrífast af öðrum þjálfurum.

„Ég verð að segja að það sem Klopp hefur gert hjá Liverpool fyllir mig innblæstri. Hvernig hann fær liðið með sér, eininguna sem hann býr til og hversu eðlilega hann kemur fyrir. Mér finnst það frábært,“ sagði Alfreð í viðtali við Mannheimer Morgen.

Alfreð undirbýr nú þýska landsliðið fyrir Evrópumótið í Ungverjalandi og Slóvakíu í næsta mánuði. Miklar breytingar hafa orðið á þýska liðinu að undanförnu og það er yngra og óreyndara en oft áður.

„Fyrir utan markverðina og Hendrik Pekeler er vöntun á þýskum heimsklassa leikmönnum. Nokkrir geta komist í þann hóp en það tekur tíma,“ sagði Alfreð. Hann segir að styrkur þýsku úrvalsdeildarinnar geri ungum þýskum leikmönnum erfitt um vik að brjótast fram á sjónarsviðið.

„Það er erfitt fyrir unga leikmenn að festa sig í sessi í þýsku úrvalsdeildinni. Það er auðveldara fyrir unga leikmenn í Danmörku og Frakklandi.“

Alfreð er einnig ósáttur með hversu margir sterkir leikmenn gefa ekki kost sér í þýska landsliðið.

„Það er mér hulin ráðgáta af hverju leikmenn velja að spila ekki fyrir landsliðið. Ég er vonsvikinn með hversu margir gefa ekki kost á sér. Ef þú horfir á Norðurlandaþjóðirnar, Frakkland, Spán og Króatíu er landsliðið gríðarlega mikilvægt fyrir alla. Leikmennirnir elska að spila með því,“ sagði Alfreð sem er á leið á sitt þriðja stórmót með þýska landsliðinu.

Þýskaland er í riðli með Austurríki, Hvíta-Rússlandi og Póllandi á EM. Fyrsti leikur Þjóðverja er gegn Hvít-Rússum 14. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×