Innherji

Kauphöllin laðar til sín tugi milljarða ef íslensk bréf færast upp um flokk hjá FTSE

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. Nasdaq Iceland

Góðar líkur eru á því að íslenski hlutabréfamarkaðurinn verði færður upp um flokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell á næsta ári og má þá búast við innflæði upp á tugi milljarða króna frá erlendum sjóðum sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við vísitölur fyrirtækisins. Þetta segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

„Ég tel góðar líkur á því að FTSE Russell færi Ísland upp um flokk á næsta ári,“ segir Magnús, í samtali við Innherja.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið flokkaður sem vaxtarmarkaður (e. Frontier Market) hjá FTSE Russell frá því í september 2019 og hjá vísitölufyrirtækinu MSCI frá því í maí 2021. Í kjölfarið fór að bera á talsverðu innflæði á markaðinn, einkum í bréf Arion og Marel.

FTSE Russell tilkynnti í lok september að til skoðunar væri að endurflokka íslenska markaðinn sem annars flokks nýmarkað (e. Secondary Emerging Market) á næsta ári en einnig var tekið fram að íslenski markaðurinn uppfyllti flest þeirra skilyrði markaður þarf til að vera flokkaður sem nýmarkaður (e. Emerging Market).

Umfang sjóða sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við nýmarkaðavísitölur er margfalt meira en þeirra sem fylgja vaxtarmarkaðsvísitölum.

„Áætlað er að uppfærsla þýði margra tuga milljarða erlent innflæði inn á markaðinn vegna fjárfestinga sjóða, sem fjárfesta í fyrirtækjum í Emerging-vísitölum FTSE Russell, og fjárfesta sem nota vísitölurnar sem viðmið. Slíkt innflæði myndi styðja enn frekar við fjármögnun fyrirtækja á hlutabréfamarkaðnum,“ segir Magnús og bætir við að Kauphöllin hafi orðið vör við aukinn áhuga erlendra fjárfesta vegna tilkynningu FTSE Russell.

Í ljósi þróunar íslenska hlutabréfamarkaðarins tel ég forsendur fyrir því að MSCI fari að huga að endurskoðun.

„Þessar fyrirætlanir FTSE Russell eru klárlega viðurkenning á uppbyggingunni sem hefur átt sér stað á markaðinum.“

MSCI hefur enn ekki gefið neitt út um möguleikann á því að íslenski markaðurinn verði færður upp í flokkinn nýmarkaður. Aðspurður segist Magnús telja ólíklegt að MSCI færi markaðinn upp um flokk á næsta ári.

„Ég álít hins vegar ólíklegt að MSCI færi Íslandi upp um flokk árið 2022 þar sem Ísland var einungis tekið inn í flokkun fyrirtækisins í fyrsta sinn í vor, eða tveimur árum síðar en FTSE Russell tók Ísland inn í sína flokkun. Uppfærsla ári síðar væri óvenju hraður framgangur,“ segir Magnús.

„Í ljósi þróunar íslenska hlutabréfamarkaðarins tel ég hins vegar forsendur fyrir því að MSCI fari að huga að endurskoðun, en ég tel líklegast að slík endurskoðun myndi í fyrsta lagi eiga sér stað 2023.“

Erlendir vísitölusjóðir, sem fjárfesta einkum í hlutabréfum félaga á vaxtamörkuðum hafa á undanförnum vikum verið að auka nokkuð hlut sinn í Arion banka. Í byrjun desember greindi Innherji frá því að Þjóðarsjóður Kúveit, einn stærsti fjárfestingasjóður í ríkiseigu í heiminum, hefði aukið verulega við eignarhlut sinn í Arion banka og næmi markaðsvirði bréfa sjóðsins í bankanum nú um tveimur milljörðum króna.

Íslensk kauphallarfélög fengu nýlega meiri vigt en áður í vísitölunni MSCI FM 100, sem inniheldur hundrað stærstu fyrirtækin í vaxtarmarkaðavísitölum MSCI. Aukningin var hlutfallslega mest hjá Kviku en vigt félagsins jókst úr 0,4 upp í 0,7 prósent. Þá komu Síldarvinnslan og Íslandsbanki ný inn í vísitöluna, og er nú alls fjórtán íslensk kauphallarfélög í MSCI FM 100.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Kauphallarfélögin fá meiri vigt í vísitölu MSCI

Íslensk kauphallarfélög fengu í dag meiri vigt en áður í vísitölunni MSCI FM 100, sem inniheldur hundrað stærstu fyrirtækin í Frontier Markets hlutabréfavísitölunum, sem fyrirtækið MSCI heldur úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×