Brotin áttu sér stað á árunum 1994 til 2004. Maxwell var sakfelld í fimm af sex ákæruliðum, en hún neitaði sök í öllum þeirra. Vegna mansalsliðsins gæti hún átt yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsisdóm. Samanlögð hámarksrefsing fyrir hina ákæruliðina er 25 ára fangelsisvist. Gæti hin sextuga Maxwell því mögulega þurft að verja restinni af ævi sinni bak við lás og slá.
Maxwell var einnig sakfelld fyrir að hafa hvatt stúlkurnar og hjálpað þeim að ferðast til Epsteins, vitandi að hann ætlaði sér að brjóta gegn þeim kynferðislega. Til grundvallar liggur meðal annars vitnisburður flugstjóra sem starfaði fyrir Epstein og farþegaskrár.
Var fjórtán ára þegar fyrst var brotið á henni
Mansalsákæran byggist einkum á framburði Carolyn sem sagði fyrir dómi að henni hafi verið greitt fyrir kynlíf þegar hún heimsótti heimili Epstein í Flórída á árunum 2001 til 2004. Carolyn lýsti hundruð slíkra tilfella sem áttu sér stað þegar hún var fjórtán til átján ára. Framburður fyrrverandi kærasta hennar studdi við vitnisburð Carolyn.
Í yfirlýsingu frá saksóknaranum Damian Williams segir að einróma kviðdómur hafi komist að þeirri niðurstöðu að Ghislaine Maxwell hafi gerst sek um einn versta glæp sem hægt væri að ímynda sér; að auðvelda og taka þátt í kynferðislegri misnotkun á börnum.
Glæpina hafi hún framið ásamt samverkamanni sínum Jeffrey Epstein. Williams fagnaði niðurstöðunni og hampaði hugrekki kvennanna sem deildu sögum sínum í réttarsalnum.
Epstein svipti sig lífi í fangelsi þann 10. ágúst 2019, þá 66 ára gamall. Það var eftir að hann var ákærður fyrir mansal og önnur brot.
Fréttin hefur verið uppfærð.