Erlent

Spítala­inn­lögnum barna fjölgar ört í Banda­ríkjunum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Spítalainnlögnum barna með Covid fjölgar ört í Bandaríkjunum.
Spítalainnlögnum barna með Covid fjölgar ört í Bandaríkjunum. AP/Nam Y. Huh

Spítalainnlögnum barna með Covid fjölgar nú ört í Bandaríkjunum. Innlagnir barna í Bandaríkjunum hafa nær aldrei verið fleiri í kórónuveirufaraldrinum en faraldurinn er í miklum vexti þar í landi.

Sérfræðingar hafa áhyggjur af stöðunni enda lítill fjöldi barna bólusettur. Yfir hátíðarnar lögðust rúmlega 300 börn inn á spítala á dag sem er 58% meira en var í vikunni fyrir jól. Læknar segja þó að veikindi virðist vægari nú en áður, til dæmis þegar delta-afbrigði kórónuveirunnar var allsráðandi. Börn eru þó enn í miklum minnihluta þeirra sem leggjast inn á spítala vegna veirunnar.

Um 14% barna á aldrinum fimm til ellefu ára eru fullbólusett í Bandaríkjunum. Þá eru um 53% barna á aldrinum tólf til sautján ára bólusett sem er ívið hærra hlutfall. Það var ekki fyrr en í nóvember á þessu ári sem bólusetningar á yngri börnum hófust og eiga því mörg börn eftir að fá seinni skammt bólusetningarinnar.

Í frétt AP News segir að margir foreldrar hafi áhyggjur af stöðunni enda hafi bólusetning yngri barna farið hægt af stað: „Við höfum skipulagt líf okkar í kringum veiruna síðustu tvö árin og fengum loks að bólusetja barnið okkar, en okkar versta martröð varð að veruleika. Of skammur tími leið og dóttir okkar smitaðist af Covid áður en líkami hennar náði að byggja upp ónæmi,“ segir móðir sex ára stúlku í viðtali við fréttaveituna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×