Sölvi hyggst fara með hlaðvarp sitt í loftið að nýju innan skamms, en hann dró sig úr sviðsljósinu fyrr á þessu ári þegar fram komu ásakanir á hendur Sölva um að hafa framið kynferðisbrot gegn tveimur konum. Í kjölfar ásakananna, sem fram komu í maí á þessu ári, dró Sölvi sig alfarið í hlé og tók alla fyrri þætti hlaðvarps síns úr birtingu.
Ekki látnir vita
Hermann Hreiðarsson segir í samtali við fréttastofu að hann hafi óskað eftir því að viðtalið við hann yrði ekki birt. Hann segist hafa heyrt af því í fréttum í gær að til stæði að birta viðtalið, en hafi að öðru leyti ekki verið látinn vita. Viðtalið væri þar að auki gamalt og tekið upp í vor, áður en ásakanir á hendur Sölva komu fram.
Oddur Hrafn Stefán Björgvinsson, betur þekktur sem Krummi í Mínus, tekur í sama streng og Hermann. Hann hefur einnig óskað eftir því að viðtal Sölva við sig verði ekki birt og furðaði sig á því að ekki hafa ekki verið látinn vita af því að til stæði að birta viðtalið.
„Þetta var bara tekið upp einhvern tímann í byrjun árs,“ segir Krummi og kveðst hafa sent skilaboð á Sölva fyrr í dag. Krummi kom hálfpartinn af fjöllum í samtali við fréttastofu.
Vísir greindi frá því fyrr í kvöld að Bogi Ágústsson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, hafi óskað eftir því að sambærilegt viðtal Sölva yrði ekki birt.
Viðmælendurnir þrír vilja lítið tjá sig efnislega um málið en segja að forsendur hafi eðli málsins samkvæmt breyst frá því að viðtölin voru tekin upp. Viðtölin hafi þar að auki verið gömul en eins og fyrr segir voru þau öll tekin upp í vor, áður en ásakanir á hendur Sölva komu fram í sviðsljósið.
Eins og fréttastofa greindi frá í gær er Hannes Hólmsteinn Gissurarson líklega meðal væntanlegra gesta Sölva. Ekki náðist í Hannes við vinnslu fréttarinnar.