Innlent

Flugeldaslys: „Fyrst og fremst full­orðnir karl­menn sem voru að brjóta öryggis­reglur“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Yfirlæknir á bráðamóttökunni segir að fullorðnir eigi að vita betur.
Yfirlæknir á bráðamóttökunni segir að fullorðnir eigi að vita betur.

Nokkrir slösuðust við notkun flugelda í gærvöldi og í nótt. Meðal slasaðra voru börn og unglingar en fullorðnir karlmenn voru þó stærstur hluti þeirra sem slösuðust af völdum flugelda. Þá vakti furðu yfirlæknis á bráðamóttöku að margir hafi hlotið brunasár á höndum þessi áramótin.

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, segir að enginn hafi slasast alvarlega en einhverjir þurfi að vera í áframhaldandi eftirliti á Landspítalanum á næstu dögum. Brunasár hafi því verið slæm í einhverjum tilfellum, en enginn hafi þurft að gista á spítalanum af völdum brunasára.

„Eins og áður var nokkuð um flugeldaslys en það var áberandi þessi áramótin hversu margir höfðu brennst á hendi. Það virðist vera sem snjóleysið hafi ýtt mönnum út í það að vera að skjóta upp flugeldum með höndunum. Og það er að sjálfsögðu alls ekki það sem mælt er með að gera,“ segir Hjalti

Fullorðnir karlmenn í flestum tilvikum

Þá hafi börn og unglingar einnig verið í minnihluta slasaðra þessi áramótin og Hjalti harmar að fullorðnir sem eigi að vita betur fari ekki að leiðbeiningum um notkun flugelda. Sjö þurftu að leita á bráðamóttöku vegna brunasára en lögregla greindi meðal annars frá því í morgun að flytja hafi þurft tvö ungmenni á bráðamóttöku eftir notkun flugelda.

„Það er áberandi með þetta að þetta voru ekki börn eða ungmenni. Þetta voru fyrst og fremst fullorðnir karlmenn sem voru að brjóta öryggisreglur og meðhöndla skotelda á óvarlegan hátt,“ segir Hjalti Már og hvetur fólk til að sýna varkárni.

Hjalti fer bjartsýnn inn í næsta ár og segir að fjöldi tilfella á bráðamóttökunni hafi ekki verið meiri en gera mætti ráð fyrir um áramótin. Bráðamóttakan glími þó við manneklu eins og aðrar stofnanir í kórónuveirufaraldrinum en vel hafi tekist að manna vaktina þessi áramótin.

„Ég vonast til þess að fólk taki því bara aðeins rólega núna, en ég hef fulla trú á því að árið byrji vel og við náum tökum á þessum kórónuveirufaraldri, og að loksins verði farið að reka Landspítalann með þeim hætti að við getum sinnt okkar verkefnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×