Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að dagurinn hafi byrjað á því að björgunarsveitarfólk í Héraði hafi komið heilbrigðisstarfsmönnum til og frá vinnu. Þá var björgunarsveit kölluð út í Vestmannaeyjum þar sem hvassir vindstrengir gengu yfir. Björgunarsveitarfólk fékk það verkefni að koma böndum á þak sem var við það að fjúka af húsi í bænum.
Í dag hafa björgunarsveitir í tvígang verið kallaðar út til að aðstoða við sjúkraflutninga, en greiða þurfti leið fyrir sjúkrabíla og flytja sjúkraflutningamenn á vettvang í Laxárdal annars vegar og í Hróarstungu í Héraði hins vegar.
Þá hefur ökumönnum bíla verið komið til aðstoðar ásamt tilfallandi verkefnum vegna foks á munum.