Handbolti

Bjarki Már fer frá Lemgo eftir tímabilið: „Vil fá nýja áskorun“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson hefur skorað grimmt fyrir Lemgo undanfarin ár.
Bjarki Már Elísson hefur skorað grimmt fyrir Lemgo undanfarin ár. Getty/Marius Becker

Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, yfirgefur Lemgo þegar samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið.

Bjarki gekk í raðir Lemgo frá Füchse Berlin 2019 og hefur átt góðu gengi að fagna hjá liðinu. Tímabilið 2019-20 var hann markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar og á síðasta tímabili varð hann bikarmeistari með Lemgo og fjórði markahæstur í þýsku deildinni. Bjarki er núna markahæstur í þýsku deildinni ásamt Niklas Ekberg, leikmanni Kiel.

„Ákvörðunin að fara frá félaginu eftir tímabilið var ekki auðveld því Lemgo er mér mjög kært. En á þessum tíma vil ég fá nýja áskorun,“ sagði Bjarki á heimasíðu Lemgo.

Lemgo er búið að finna eftirmann Bjarka. Sá heitir Samuel Zehnder, 21 árs svissneskur landsliðsmaður sem leikur undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar hjá Kadetten Schäffhausen.

Bjarki er nú með íslenska landsliðinu sem hefur í dag formlegan undirbúning fyrir Evrópumótið í Ungverjalandi og Slóvakíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×