Von er á því að fjöldi erlendra farandverkamanna muni þurfa á plássi að halda á næstu dögum þegar þeir snúa aftur til landsins eftir hátíðarnar. 250 gestir dvelja nú á farsóttarhúsum en fram að þessu hefur einungis um helmingur Icelandair Hotel Natura verið nýttur undir starfsemina.
Tvö önnur hótel eru tilbúin til opnunar ef nauðsyn krefur, þeirra á meðal Fosshótel Baron við Barónstíg sem hefur áður verið nýtt sem farsóttarhús.
Tóku fólk inn um á síðustu mínútum ársins
Mikil álag var á farsóttarhúsunum um jól og áramót og þurfti að forgangsraða eftir þörf fólks þegar um hundrað manns biðu eftir plássi.
„Það var bara gífurlega mikið að gera, við vorum að setja inn fólk alveg til miðnættis á gamlárskvöld og strax aftur eldsnemma á nýársmorgun. Það hefur ekkert stoppað hjá okkur um áramótin,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, í samtali við fréttastofu.
Gylfi vonast til að auðveldara verði að fá herbergi undir starfsemina nú þegar erlendir ferðamenn eru farnir að yfirgefa landið eftir áramótin.
„Á móti kemur að nú er töluvert af farandverkamönnum sem fóru heim í jólafrí en koma aftur og ef við höfum eitthvað lært af reynslunni frá því í fyrra þá vitum við að stór hópur þeirra á eftir að koma sýktur til landsins. Við vitum að við þurfum að vera klár í það.“

Margir ferðamenn þurft að yfirgefa hótel sín
Fjölmörg dæmi eru um að erlendum gestum hafi verið gert að yfirgefa hótel sín eftir að þeir eða samferðafólk þeirra greinist með Covid-19 hér á landi. Kemur það þá í hlut farsóttarhúsa að reyna að grípa þá einstaklinga og veita þeim gistipláss á meðan þeir ljúka einangrun.
Meðal þeirra er hópur ferðamanna sem átti bókaða gistingu á Hótel Rangá á Suðurlandi um hátíðirnar.
„Við höfum verið svo heppin með það að það hefur bara komið upp einu sinni hjá okkur, og það hjá gestum sem voru bara nánast rétt komnir inn og fóru bara strax aftur,“ segir Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár. Hópurinn hafi svo séð um að koma sér sjálfum á farsóttarhús í samstarfi við ferðaskrifstofu sína.

Gengið vel en nú ríki meiri óvissa vegna ómíkron
Friðrik segir að álag hafi aukist mjög á starfsfólk vegna faraldursins og þeim sé nú gert að fara í Covid-sjálfspróf á hverjum degi í ljósi aðstæðna. Í ofanálag hafi starfsfólk verið að lenda reglulega í einangrun og sóttkví líkt og á flestum öðrum vinnustöðum.
„Við reynum að láta það hafa eins lítil áhrif á starfsemina og hægt er en það tekur sinn toll.“
Umfangsmikil hópsýking hafði mikil áhrif á starfsemi Hótel Rangár sumarið 2020. Talið er að minnst 63 einstaklingar sem greindust með Covid-19 í annarri bylgju faraldursins hafi haft bein eða óbein tengsl við hópsýkingunua. Þá þurfti ríkisstjórnin að fara í skimun eftir viðkomu sína á hótelinu vinsæla. Friðrik segir að sóttvarna sé þar gætt í hvívetna, bæði þá og nú.
Mikið hefur verið að gera á Hótel Rangá yfir hátíðirnar og í raun frá því um mitt sumar. Friðrik segir þó meiri óvissu ríkja um framhaldið og bókunarstaðan nú lakari en hefur verið. Hann segir greinilegt að fólk sé órólegt vegna núverandi þróunar faraldursins á heimsvísu og það komi til með að hafa áhrif á ferðaþjónustuna.