Innlent

Grunar að kveikt hafi verið í tveimur bú­stöðum við Elliða­vatn á einni viku

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ákveðið var að láta bústaðinn brenna til grunna en reyna að vernda gróðurinn í kring.
Ákveðið var að láta bústaðinn brenna til grunna en reyna að vernda gróðurinn í kring. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Grunur er um að kveikt hafi verið í sumarbústað við Elliðavatn í nótt. Um er að ræða annan húsbrunann á þessum slóðum á einni viku og grunur um að einnig hafi verið kveikt í hinu húsinu.

„Þetta er auðvitað grunur sem kemur upp hjá mönnum þegar þetta er annað skiptið sem svona gerist á stuttum tíma í bústöðum, sem eru ekki í notkun,“ segir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við fréttastofu. 

Gamall bústaður austan við Elliðavatn brann til kaldra kola fyrir viku síðan, 28. desember, og var hann alelda þegar slökkvilið bar að garði. Bústaðurinn hafði verið mannlaus í mörg ár og segir Sigurjón að rafmagn hafi ekki einu sinni verið á honum þegar hann brann. Því séu talsverðar líkur á að eldur hafi verið borinn að honum. Óvíst er hvort rafmagn hafi verið á þeim sem brann í morgun en hann var ekki í notkun. 

Slökkviliðið birti í morgun myndband af bústaðnum í ljósum logum en tilkynning um brunann barst til slökkviliðs um klukkan fimm í morgun. Þegar á staðinn var komið stóð bústaðurinn í ljósum logum og ákvörðun var tekin um að leyfa honum bara að brenna. 

„Ég er ennþá með dælubíl á staðnum og það eru glæður í þessu ennþá sem við leyfum að brenna og erum að fylgjast með. Við reiknum með að vera þarna í kannski klukkutíma í viðbót,“ segir Sigurjón. 

„Það er mikill gróður þarna í kring og mikið af háum trjám og mjög þurrt í frostinu. Við vildum ekki fara að fá gróðurelda inn í þetta líka,“ segir hann. 

Hann segir ástæðu þess að ákveðið hafi verið að leyfa bústaðnum að brenna í morgun þá að hann sé á vatnsverndarsvæði og meiri skaði hefði hlotist af því að fara að slökkva eldinn en að leyfa honum að brenna. 

„Þegar við komum á staðinn er bústaðurinn alelda og þegar þetta er svona nálægt vatnsverndarsvæði og við sjáum ekki fram á að bjarga neinu ákveðum við að leyfa þessu að brenna niður svo við séum ekki að sprauta vatni og fá sót og drullu í vatnsbyrgðir borgarinnar. Þannig að það hlaust minni mengun af því að leyfa þessu að brenna en að fara að sprauta á þetta.“

Rannsóknin á brunanum verður færð á borð lögreglu en Sigurjón telur þó erfitt að komast að því hvað hafi raunverulega gerst, þar sem lítið sé eftir af bústaðnum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×