Hljóðfráar eldflaugar geta ferðast á margföldum hljóðhraða.
Herforingjaráð Suður-Kóreu sagði í morgun að enn væri verið að fara yfir gögn um eldflaugaskotið. Henni hafi þó verið skotið til austurs og hafi lent í sjónum.
Yonhap fréttaveitan segir þetta í fyrsta sinn frá því í október sem eldflaug er skotið frá Norður-Kóreu. Eldflaugaáætlun einræðisríkisins fátæka fer gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna en Kim Jong Un, einræðisherra, sagði á fundi í síðustu viku að hann ætlaði að bretta upp ermarnar og auka burði herafla ríkisins.
AP fréttaveitan segir eldflaugarskotið til marks um að ríkisstjórn Kim hafi ekki áhuga frekari viðræðum um eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlanir ríkisins, sem ríkisstjórn Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, hefur sagst opin fyrir að hefja á nýjan leik.
Viðræður milli ríkjanna féllu niður árið 2019 þegar Kim krafðist þess að viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu yrðu felldar niður, áður en hann tæki skref í átt að afvopnun. Það tók Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, ekki í mál.
Síðan þá er hagkerfi Norður-Kóreu talið hafa beðið verulega hnekki og þar á meðal vegna faraldurs kórónuveirunnar, náttúruhamfara, spillingar og viðskiptaþvingana.