Kaupverðið á samanlagt 97,34 milljónum hluta að nafnvirði var á genginu 14,6 krónur á hlut og nam því um 1.420 milljónum króna. Viðskiptunum var flaggað í Kauphöllinni rétt í þessu en þau áttu sér stað í gær samhliða því að bandaríski vogunarsjóðurinn keypti sömuleiðis fimm prósenta hlut en á sama tíma seldu lífeyrissjóðirnir Gildi og Birta samtals hátt í tíu prósenta hlut í félaginu.
Hlutabréfaverð Skeljungs hækkaði um liðlega 4,3 prósent í þriggja milljarða króna viðskiptum í gær og stóð gengið í 14,7 krónum á hlut við lokun markaða. Veltan í dag hefur numið um 300 milljónum og gengið hefur staðið í stað.
Guðni Rafn, sem eignaðist félagið sem er dreifingaraðili Apple á Íslandi í árslok 2016, er meðal annars einnig á meðal eigenda pizzustaðarins Spaðans ásamt þeim Þórarni Sævarssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, og Jóni Pálmasyni, annar eigenda IKEA á Íslandi. Kaup Guðna í Skeljungi eru gerð í gegnum eignarhaldsfélagið GE Capital en það hagnaðist um 340 milljónir króna á árinu 2020 og eigið fé þess var rúmlega 1.200 milljónir í lok þess árs.
Eftir sölu Gildis og Birtu í Skeljungi hefur samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóða í Skeljungi minnkað enn frekar og er nú rétt yfir 20 prósent. Frjálsi er með stærsta eignarhlutinn af lífeyrissjóðunum en hann nemur í dag um átta prósentum en aðrir sjóðir eiga allir undir fimm prósent.
Fjárfestingafélagið Strengur, sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurður Bollason fara meðal annars fyrir, er sem kunnugt er með rúmlega 50 prósenta hlut í Skeljungi eftir að hafa fjármagnað skuldsetta yfirtöku á félaginu í ársbyrjun 2021.
Verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi Skeljungs að undanförnu þar sem eignir hafa verið seldar, reksturinn stokkaður upp með stofnun nýrra dótturfélaga og tilgangi félagsins breytt þannig að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi. Þá hafa stjórnendur Skeljungs hætt við fyrri áform sín um afskráningu heldur er nú horft til þess að starfrækja fjárfestingafélag sem verður skráð á hlutabréfamarkað.
Í lok síðasta árs gekk Skeljungur frá sölu á Magni til Sp/f Orkufélagsins. Endanlegt kaupverð nam 12,2 milljörðum króna en Skeljungur er skuldbundinn til að endurfjárfesta 2,8 milljörðum króna í Orkufélaginu gegn því að eignast ríflega 48 prósenta hlut. Þá skrifaði Skeljungur undir viljayfirlýsingu um sölu fasteigna fyrir 8,8 milljarða króna til fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns. Þeir fjárfestar sem standa að baki Strengi eru sömuleiðis ráðandi hluthafar í Kaldalóni.
Hlutabréfaverð Skeljungs hefur hækkað um liðlega sextíu prósent á undanförnum tólf mánuðum og er markaðsvirði félagsins í dag um 28 milljarðar króna.