Skoðun

Sam­fé­lagið og fötlunar­for­dómar

Sunna Dögg Ágústsdóttir skrifar

Fötlunarfordómar hafa verið til í mörg þúsund ár, líklega frá byrjun mannkynssögu, en það þýðir ekki að þeir séu eðlilegir eða réttlætanlegir. Þvert á móti, þessir fordómar eru það sem hefur haldið niðri milljörðum manneskja (ég er ekki að ýkja, tölur fatlaðs fólk í heiminum eru a.m.k einn milljarður og í þessari grein tel ég einnig með fatlað fólk sem ekki er lifandi í dag) og skaðað þeirra tækifæri.

Fötlun er ekki líkamlegt ástand, heldur samfélagslegt ástand. Ef samfélagið virti þarfir fatlaðs einstaklings væri sá einstaklingur ekki lengur fatlaður. Því miður leggur samfélagið áherslu á að það sé fatlaði einstaklingurinn sem þarfnast lækningar, en ekki á það að samfélagið sjálft sé sem þarf að breytast, læknast af fordómum. Þetta leiðir til óæskilegra viðhorfa, jafnvel haturs gagnvart fötluðu fólki og hindrar oft að litið sé á fatlað fólk sem manneskjur með réttindi.

Þetta getur einnig leitt til þess að ófatlað fólk vorkenni fötluðu fólki. Ég get ekki talað fyrir allt fatlað fólk, en mig grunar að flest okkar viljum ekki vorkun. Það sem við viljum eru aðgerðir sem skila okkur þeim réttindum sem stolið var af okkur við fæðingu. Við viljum ekki að ófötluðu fólk líði eins og að það sé bjargvættar okkar fyrir að skila okkur einhverju sem við eigum nú þegar rétt á. Við viljum að samfélagið byrji loksins að hlusta á það sem við höfum verið að segja frá upphafi mannkynssögu, að við erum manneskjur og því að vera manneskja fylgja réttindi, að við séum sterk og það að samfélagið líti niður á okkur fyrir að vera til er ekki okkur að kenna, heldur er það sök samfélags sem kann ekki að gera ráð fyrir hollum fjölbreytileika.

Þetta samfélag skapar þjáningu fyrir alla, fatlað fólk og ófatlað fólk. Við verðum að taka höndum saman og breyta því í samfélag án aðgreiningar, samfélag þar sem gert er ráð fyrir öllum. Viljið þið standa með okkur?

Höfundur er verkefnisstjóri ungmennaráðs Þroskahjálpar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×