„Við þurfum að halda samfélaginu gangandi eins og framast er kostur, hvort sem við horfum til skólanna, velferðarþjónustu eða margvíslegrar atvinnustarfsemi og eins og staðan er núna eru þetta bráðnauðsynleg viðbrögð.“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra um breytinguna.
Á vefsíðu Stjórnarráðsins segir að með breytingunum sé dregið verulega úr takmörkunum á einstaklinga sem þurfa að sæta sóttkví ef þeir eru þríbólusettir gegn Covid-19.
Breytingin breyti stöðunni
Þá segir að breytingin muni gjörbreyta stöðunni í samfélaginu þar sem um 160 þúsund manns hafa þegar þegið þriðju sprautu. Þá gildi hinar nýju reglur einnig yfir þá sem hafa jafnað sig af staðfestu smiti og þegið tvær bólusetningar.
Nánar tiltekið gildi reglurnar yfir:
-
Einstaklinga sem eru þríbólusettir og fengu síðustu sprautuna meira en 14 dögum áður en viðkomandi er útsettur fyrir smiti
-
Einstaklinga sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti og eru jafnframt tvíbólusettir, að því gefnu að þeir hafi fengið síðari sprautuna meira en 14 dögum áður en þeir voru útsettir.
Breyttar reglur fela í sér að þessum einstaklingum er:
-
heimilt að sækja vinnu eða skóla og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, fara í matvöruverslanir og lyfjabúðir og nota almenningssamgöngur,
-
óheimilt að fara á mannamót eða staði þar sem fleiri en 20 koma saman, nema í því samhengi sem nefnt er hér að ofan,
-
skylt að nota grímu í umgengni við alla nema þá sem teljast í nánum tengslum og gildir grímuskyldan einnig þótt hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð,
-
óheimilt að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þar með talin hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar,
-
skylt að forðast umgengni við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af Covid-19.
Þessum vægari takmörkunum lýkur á fimmta degi sóttkvíar með neikvæðri niðurstöðu PCR-prófs.