Innlent

Fjórða andlátið á árinu af völdum Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Andlátið hefur ekki skilað sér inn í tölfræði Landspítala.
Andlátið hefur ekki skilað sér inn í tölfræði Landspítala.

Einstaklingur lést af völdum Covid-19 í gær. Frá þessu greindi Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Björn Inga Hrafnsson sem sýnt var frá á Facebook-síðu Viljans.

Sjúklingurinn sem lést var kona á níræðisaldri að því er segir á vef Landspítalans.

Þetta er þriðja dauðsfallið af völdum sjúkdómsins á síðustu dögum en tveir létust úr Covid-19 um helgina, báðir karlmenn á níræðisaldri. Þá lést karlmaður á sjötugsaldri af völdum Covid-19 4. janúar síðastliðinn.

Ellefu hafa nú látist í fjórðu bylgju faraldursins en 42 frá upphafi.

Í gær lágu 37 á Landspítala með Covid-19, sjö á gjörgæslu og þar af sex í öndunarvél. Tveir í umsjá Covid-göngudeildar voru rauðmerktir, sem þýðir að innlögn sé líkleg, og 156 gulir, sem þýðir að göngudeildin sé í símasambandi við viðkomandi um mögulega skoðun og innlögn.

Fréttin var uppfærð klukkan 10 með upplýsingum af vef Landspítalans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×