Erlent

Bretar sem greinast jákvæðir í hraðprófi þurfa ekki lengur að fara í PCR próf

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á Íslandi hafa þeir sem greinast jákvæðir í hrað- og heimaprófum verið skikkaðir til að fara í PCR-próf til að staðfesta niðurstöðuna.
Á Íslandi hafa þeir sem greinast jákvæðir í hrað- og heimaprófum verið skikkaðir til að fara í PCR-próf til að staðfesta niðurstöðuna. Getty/Danny Lawson

Bretar með einkenni Covid-19 þurfa ekki lengur að gangast undir PCR próf eftir að hafa fengið jákvæða niðurstöðu úr hrað- eða heimaprófi. Bresk heilbrigðisyfirvöld segja breytinguna mega rekja til mikillar útbreiðslu og nákvæmni hraðprófanna.

Yfirvöld vonast til þess að reglubreytingin verði meðal annars til þess að þeir sem eru með einkenni Covid-19 komist að í PCR-próf en margir hafa átt erfitt með að fá tíma eftir að ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar kom af stað mikilli bylgju í samfélaginu.

Samanlögð greiningargeta Breta eru um 800 þúsund á dag en 6. janúar síðastliðinn voru um það bil 698 þúsund próf framkvæmd og 613 þúsund próf 9. janúar.

Þó hafa margir átt erfitt með að komast í próf en auk einstaklinga með einkenni hafa ýmsar starfstéttir verið skikkaðar í PCR-próf. Til dæmis hafa heilbrigðisstarfsmenn, starfsmenn í samgönguþjónustu og fleiri verið skikkaðir í reglulega sýnatöku.

Í gær hófst síðan dagleg sýnataka hjá um það bil 100 þúsund starfsmönnum í mikilvægum störfum, svo sem í matvælaiðnaði og landamæragæslu.

Um 218 þúsund greindust með Covid-19 á Bretlandseyjum fyrir viku síðan en 142 þúsund í gær. 

Samkvæmt breskum heilbrigðisyfirvöldum nema hraðprófin Covid-19 hjá meira en 80 prósent þeirra sem eru mikið smitandi. Af hverjum 10 þúsund prófum séu færri en þrjár ranglega jákvæðar niðurstöður.

Þeir sem greinast jákvæðir í hraðprófi þurfa að einangra sig jafnvel þótt þeir sýni ekki einkenni. Þeir eru lausir úr einangrun ef þeir mælast neikvæðir í tveimur aðskildum prófum sem framkvæmd eru á dögum sex og sjö, með 24 klukkustunda millibili.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×