Með breytingunum sem tóku gildi 7. janúar er einstaklingum sem eru þríbólusettir minnst fjórtán dögum áður en þeir eru útsettir fyrir smiti meðal annars heimilt að sækja vinnu, skóla og matvöruverslanir á meðan þeir eru í sóttkví. Nýju reglurnar ná sömuleiðis til tvíbólusettra sem hafa jafnað sig af Covid-19.
Ólíkt öðrum bóluefnum sem notuð hafa verið hér á landi gegn Covid-19 fer bólusetning með bóluefni Janssen fram með einum skammti í stað tveggja. Fram kemur í bréfi Skúla Magnússonar, umboðsmanns Alþingis, til Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra að samkvæmt orðalagi nýrrar reglugerðar um sóttkví og einangrun vegna Covid-19 virðist þeir sem upphaflega voru bólusettir með bóluefni Janssen og þegið hafa einn örvunarskammt ekki falla undir áðurnefnda rýmkun á reglum um sóttkví.
Spurning um meðalhóf og jafnræði
Óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort til hafi staðið að gera þennan greinarmun á framkvæmd sóttkvíar bólusettra einstaklinga og þá hvaða gögn eða aðrar upplýsingar hafi legið til grundvallar mati heilbrigðisráðherra. Telur umboðsmaður að málið varði grunnreglur íslensks réttar um jafnræði og meðalhóf og þær kröfur sem gera verði á þeim grundvelli til setningar stjórnvaldsfyrirmæla með heimild í sóttvarnalögum.
Að fengnum svörum ráðuneytisins hyggst umboðsmaður taka ákvörðun um hvort tilefni sé til að taka málið til nánari athugunar. Óskað er eftir því að skýringar heilbrigðisráðuneytisins berist eigi síðar en 18. janúar.
Fréttin hefur verið uppfærð.