Innlent

Auður Perla Svans­dóttir er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Auður Perla Svansdóttir lengi hjá Actavis en hóf störf hjá Nox Medical árið 2017.
Auður Perla Svansdóttir lengi hjá Actavis en hóf störf hjá Nox Medical árið 2017. Aðsend

Auður Perla Svansdóttir, matvælafræðingur og formaður Mótettukórsins, er látin, 52 ára að aldri. Hún lést á Landspítalanum 6. janúar síðastliðinn.

Auður Perla fæddist 6. apríl 1969 í Reykjavík, dóttir Svans Þórs Vilhjálmssonar, lögmanns f. 1939 og d. 2009, og Ingunnar Jensdóttur listakonu f. 1941.

Í tilkynningu frá fjölskyldu Auðar Perlu segir að hún hafi alist upp í Reykja­vík til sjö ára aldurs og gengið þá í Melaskólann. Hún fluttist svo með móður sinni til Hafnar í Hornafirði árið 1979, var í Heppuskóla og lauk grunnskólaprófi 1984.

„Þá lagði hún leið sína í Menntaskólann á Laugarvatni, var fyrsti kvenstallarinn þar og varð stúd­ent árið 1988. Perla lauk BSc gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands og lagði hún einnig stund á söngnám og útskrifaðist úr Söngskóla Sigurðar Demetz með framhaldspróf í söng árið 2013.

Perla starfaði á annan áratug hjá Actavis á gæðarannsóknardeild félagsins og lengst af í stjórnendastöðu. Árið 2017 hóf hún störf hjá Nox Medical og starfaði þar við gæðamál til dauðadags.

Perla var mikil söngkona og stundaði kórastarf alla sína ævi. Hún var meðlimur í Kvennakór Reykjavíkur í fjöldamörg ár og kórmeðlimur í Mótettukórnum frá árinu 2008 og síðustu ár gegndi hún einnig stöðu formanns Mótettukórsins.

Perla var alltaf virk í öllu félagsstarfi og lætur eftir sig stóra fjölskyldu sem mun sakna hennar mikið.

Eft­ir­lif­andi eiginmaður Perlu er Kjartan Már Ásmundsson f. 1969 og eftirlifandi börn þeirra eru Kolfinna Kjartansdóttir, háskólanemi í félags- og tómstundafræði f. 1993 í sambúð með Arnari Steini Ólafssyni f. 1986, Karitas Kjartansdóttir, meistaranemi í sálfræði f. 1995 og Eiríkur Friðjón Kjartansson, verkfræðinemi f. 2001. Perla lætur einnig eftir sig sjö systkini sem voru henni öll afar náin,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×