Innherji

Forstjóri Haga: Kostnaðarhækkanir „dynja yfir geirann“ sem munu skila sér út í verðlagið

Hörður Ægisson skrifar
Hagar reka meðal annars verslanir Bónus en smásölurisinn áætlar að skila um 10 til 10,5 milljarða króna hagnaði á núverandi fjárhagsári. 
Hagar reka meðal annars verslanir Bónus en smásölurisinn áætlar að skila um 10 til 10,5 milljarða króna hagnaði á núverandi fjárhagsári. 

Finnur Oddsson, forstjóri Haga sem reka meðal annars matvöruverslanirnar Bónus og Hagkaup, segir kostnaðarverðshækkanir „dynja yfir geirann þessar vikurnar“ og að það blasi við að þær muni „óhjákvæmilega“ finna sér leið út í verðlagið.

Hann vonast hins vegar til þess að þær verðhækkanir muni ganga hratt yfir á næstu mánuðum, eða í síðasta lagi á þessu ári.

Þetta kom fram í máli Finns á uppgjörsfundi Haga í morgun en útlit er fyrir áframhaldandi verðhækkanir á hrá- og neytendavöru á heimsvísu vegna hnökra í aðfangakeðju og aukinni eftirspurn í heimshagkerfinu. Verðbólga á Íslandi, eins og í öðrum löndum beggja vegna Atlantshafs, hefur hækkað skarpt á undanförnum misserum vegna meðal annars þessara þátta og mælist hún í dag 5,1 prósent.

Finnur sagði að Hagar, sem eru stærsta smásölufyrirtæki landsins með markaðsvirði upp á rúmlega 80 milljarða króna, væru að reyna gera allt sem í þeirra valdi stæði til að halda aftur af þessum áhrifum. Meðal annars með því að hagræða í innkaupum félagsins og kaupa meira magn fram í tímann.

Finnur Oddsson hefur verið forstjóri Haga frá því sumarið 2020.

„Þetta eru hins vegar mjög skrýtnar aðstæður,“ útskýrði Finnur á fundinum, „og má líkja við því að standa í fjallshlíð og reyna að stöðva snjóflóð með berum höndum. Það er ekkert að fara takast. En við munum að sjálfsögðu moka skaflana og snúa þessu við um leið og hægt er.“

Aðspurður á fundinum sagði Finnur að kostnaðarverðshækkanir væru núna að koma fram á nokkurra mánaða fresti frá sömu birgjum, og bætti við: „Það er held ég alveg óhætt að segja að það sé pínu dökkt fram undan,“ og segist hann búast við „holskeflu“ verðhækkana núna í framhaldi af áramótum.

Hagnaður Haga jókst um 88 prósent

Hagnaður Haga, sem rekur einnig eldsneytisfyrirtækið Olís, var rúmlega 840 milljónir króna á þriðja fjórðungi fjárhagsárs félagsins – það nær frá september til nóvember – og jókst hann um 88 prósent á milli ára, samkvæmt uppgjöri sem var skilað eftir lokun markaða í gær. Velta Haga nam 33,6 milljörðum og hækkaði um 12,6 prósent frá fyrra tímabili en EBITA-hagnaður félagsins nam 2,5 milljörðum króna.

Þetta eru hins vegar mjög skrýtnar aðstæður og má líkja við því að standa í fjallshlíð og reyna að stöðva snjóflóð með berum höndum. Það er ekkert að fara takast.

Afkomuspá stjórnenda Haga gerir ráð fyrir að EBITDA-hagnaður fyrir fjárhagsárið í heild sinni, sem nær til loka febrúar 2022, verði á bilinu 10 til 10,5 milljarðar króna.

Hlutabréfaverð Haga hefur hækkað um 0,7 prósent í rúmlega 200 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni það sem af er degi og stendur í 70 krónum á hlut. Á undanförnum tólf mánuðum hefur gengi bréfa félagsins hækkað um liðlega 18 prósent.

Í fjárfestakynningu Haga er einnig bent á að sé litið til hagnaðar á hlut þá hefur hann hækkað verulega á síðustu ársfjórðungum. Uppsafnaður hagnaður sé nú 3,57 krónur á hlut fyrir síðustu 12 mánuði og hefur á þeim tíma hækkað um 78 prósent.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Ár innfluttrar verðbólgu

Eins og allir vita segir sagan okkur að verðbólga á Íslandi hefur jafnan verið hærri en í nágrannalöndum okkar. Svo ekki sé nú minnst á ástandið á sumum tímabilum síðustu aldar þegar verðbólgan var tugum prósenta hærri hér á landi en í helstu nágrannalöndum.

Hagvaxtarauki kemur fyrirtækjum spánskt fyrir sjónir

Hagvaxtarauki lífskjarasamninganna, sem kveður á um launahækkun vegna hagvaxtar þessa árs og tekur gildi frá maí á næsta ári, skýtur skökku við að mati, viðmælenda Innherja í veitinga- og smásölugeiranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×