Stjórn Persónuverndar birti bréf í dag vegna ummæla Kára um ákvörðun Persónuverndar. Forsaga málsins er sú að Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að vinnsla Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar á persónuupplýsingum í tengslum við rannsókn þeirra á Covid-19 samrýmdist ekki persónuverndarlögum.
„Við lítum svo á að það sé alveg ómældur sóðaskapur af þessu stjórnvaldi að þegar við erum á bólakafi í að reyna að hjálpa sóttvarnayfirvöldum að takast á við faraldurinn að þau sjái ástæðu til að leggjast í frumkvæðisathugun á því hvernig þessi hjálp hefur verið reidd fram,“ segir Kári í viðtali í Reykjavík Síðdegis.
Kári áður fordæmt Persónuvernd
Kári hefur áður sagt að Persónuvernd haldi því fram að stjórnvaldið viti betur en landlæknir, sóttvarnalæknir og yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, um vinnuna sem fram fór þegar blóðsýni voru tekin úr Covid-sjúklingum í apríl á síðasta ári.
„Við skulum orða það þannig að þetta er ekki beinlínis gjörningur sem gerir það að verkum að það eigi að vera auðvelt fyrir fólk að leggjast á árarnar þegar þörf krefur. Þetta er gjörsamlega út í hött og ekki nokkur möguleiki að halda því fram að þarna hafi Persónuvernd verið að stjórna sínu samfélagi. Þetta bréf bendir til þess að stjórn Persónuverndar sé enn þá ruglaðari en ég hélt,“ segir Kári.
Hlusta má á viðtalið við Kára í heild sinni hér að neðan.