Ómíkron afbrigði kórónuveirunnar virðist ekki hafa haft mikil neikvæð áhrif á neyslu fólks í desember þar sem hún mældist meiri en sást í hefðbundnum desembermánuði áður en faraldurinn skall á.
Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands tæplega 92 milljörðum króna í desember og jókst um 6% milli ára á föstu verðlagi. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans og byggir á nýbirtum tölum Seðlabankans um kortaveltu.
Kortavelta innlendra greiðslukorta jókst þó minna í desember en mánuðina á undan þegar hún jókst um 20% milli ára í nóvember og 24% í október. Því er ekki hægt að útiloka að fjölgun smitaðra í byrjun desember hafi dregið eitthvað úr neyslu þann mánuðinn.
Að sögn Hagfræðideildar Landsbankans er þó erfitt að fullyrða um slíkt þar sem neyslan mælist heldur meiri en í desember 2019, bæði innanlands og erlendis. Innanlands mælist aukningin 11% miðað við desembermánuð 2019 og erlendis 4% að raunvirði.