Nú eru 42 sjúklingar inniliggjandi með Covid-19 á Landspítala, þar af 33 með virkt smit. Í gær voru fjórar innlagnir og fimm útskriftir. Á gjörgæslu eru átta sjúklingar og fjórir þeirra í öndunarvél.
Eitt barn sem lagðist inn á spítalann Þorláksmessu liggur á gjörgæsludeild vegna Covid-19, að sögn Valtýs Stefánssonar Thors, barnasmitsjúkdómalæknis á Barnaspítala Hringsins. Annað barn var lagt inn á spítalann í gær en hefur nú verið útskrifað.
Komi brátt í ljós hvort takmarkanirnar skili árangri
Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar, segir stöðuna á Landspítalanum áfram vera í járnum en það hjálpi að dregið hafi úr komum sjúklinga á bráðamóttöku allra síðustu daga.
Fjölmörgum aðgerðum hefur verið frestað á spítalanum í faraldrinum, þar á meðal hjá fólki sem greinst hefur með góðkynja æxli. Már segir að það verði umfangsmikið verkefni að vinna upp biðlista þegar faraldurinn kemst fyrir vind.
„Þá má búast við því að þetta hvelfist yfir. Þetta getur ekki dregist úr hömlu, það er ekki ásættanlegt svo það verða næg verkefni að vinna þetta upp í framhaldinu.“
Ríkisstjórnin tilkynnti í dag að tíu manna samkomubann tæki gildi á miðnætti. Már á von á því að það komi í ljós á næstu sjö til tíu dögum hvort nýju aðgerðirnar skili tilætluðum árangri.
„Ef fólk passar sig vel þá bind ég miklar vonir við þetta. Ef fólk passar sig ekki og breytir ekki sinni hegðun þá er ekki víst að þetta skipti neinu máli. Tíminni mun leiða þaðí ljós.“