Innlent

Munaði ör­fáum sekúndum á að snjó­­flóð hefði fallið á bílinn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hér má sjá bílinn sem sat fastur í stærsta snjóflóðinu við veginn.
Hér má sjá bílinn sem sat fastur í stærsta snjóflóðinu við veginn. jónþór eiríksson

Fjöldi snjó­flóða hefur fallið niður á veg við Súðavíkurhlíð í kvöld. Vega­gerðin lokaði veginum á tíunda tímanum í kvöld en þeir sem fóru veginn fyrr í kvöld furða sig á að honum hafi ekki verið lokað fyrr. Einn veg­farandi segist hafa rétt sloppið við snjó­flóð sem féll á veginn nokkrum sekúndum áður en hann keyrði þar að.

„Þetta er stór­hættu­leg hlíð,“ segir Jón­þór Ei­ríks­son íbúi í Súða­vík í sam­tali við Vísi. Hann sótti kærustu sína til Ísa­fjarðar í kvöld og keyrði því veginn um Súðavíkurhlíð um klukkan 19.

„Það var fullt af snjó­flóðum þarna sem höfðu fallið og náðu inn á veg. Fullt af spírum svona niður hlíðina og mörg sem höfðu ekki komist alveg niður að vegi og önnur sem höfðu fallið yfir hann,“ segir hann. Hann hafi keyrt að bíl sem sat fastur í stærsta flóðinu.

Óhuggulegt að horfa upp í kolsvarta hlíðina

„Það var þarna búin að myndast dá­lítil bíla­röð, flutninga­bíll sem sat fastur að bíða eftir að komast í gegn og ég stökk út með skóflu að hjálpa til við að losa bílinn,“ segir Jón­þór.

Það hafi verið ó­huggu­legt að standa þar úti á veginum vitandi af nokkrum kyrr­stæðum bílum sem biðu þar í snjó­flóða­hættunni eftir að komast leiðar sinnar. „Það er það ó­neitan­lega að standa og horfa upp í kol­svarta hlíðina sem maður sér ekkert í og vita ekkert hvort það sé að fara að falla á mann snjó­flóð,“ segir hann.

Hann hafi þó komist veginn slysa­laust enda á góðum bíl. „For­eldrar mínir voru líka að keyra veginn rétt fyrir framan mig og ég var í sam­bandi við þau. Allt í einu keyri ég fram á snjó­flóði á veginum, sem hafði ekki verið fallið þegar þau keyrðu þar rétt á undan mér. Þannig það hefur bara munað ein­hverjum þrjá­tíu sekúndum á að það hefði fallið á annað hvort minn bíl eða þeirra,“ segir Jón­þór.

Það hefði hæg­lega getað ýtt bílnum út af veginum að hans sögn. Í­búar Súða­víkur hafa lengi kallað eftir göngum til Ísa­fjarðar. „Þetta er bara stór­hættu­legur vegur og ráða­menn verða að fara að átta sig á því.“

Hann furðar sig þá á því að Vega­gerðin hafi ekki lokað veginum fyrr í kvöld. „Já, ég held þeir þyrftu eitt­hvað að vakta þetta betur og loka veginum fyrr. Það höfðu fallið mörg snjó­flóð þarna niður á veginn áður en honum var lokað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×