Skoðun

Fjöl­breytt vist­kerfi í ó­notuðu landi

Atli Guðjónsson skrifar

Við Reykvíkingar búum svo sannarlega í fallegri borg þar sem við erum svo heppin að búa að fjölbreyttri menningu og náttúru.

Samt sem áður eyðum við miklum tíma og pening í að viðhalda einhæfum vistkerfum á stórum landsvæðum án þess að fá út úr þeim þá virkni sem getur nýst okkur betur.

Þessi svæði eru hljóðmanir, umferðareyjur og önnur græn svæði. Þessi gras svæði eru afar einhæf vistkerfi sem styðja ekki líffræðilegan fjölbreytileika ásamt því að kosta borgarbúa háar fjárhæðir ár hvert í slætti, eftirliti, losun úrgangs og svo framvegis.

Jákvæðar afleiðingar þess að gróðursetja trjágróður á þessum gras svæðum eru margþættar. Trjágróður stuðlar að betri hljóðvist þar sem svæðin liggja að umferðaræðum ásamt því að draga úr mengun með bindingu kolefnis og dreifingu ryks frá vegum. Líffræðilegur fjölbreytileiki eykst og styður betur við fugla og skordýra flóru. Þéttur trjágróður á þessum svæðum getur líka dregið úr vindi í hverfum borgarinnar og stuðlað að fleiri, fjölbreyttari og skjólsamari útivistarsvæðum borgarbúa.

Jákvæð aukaverkun trjágróðurs á þessum grassvæðum felst líka í lægri viðhalds- og rekstrarkostnaði fyrir Reykjavíkurborg. Sláttur á landsvæði sem nemur mörgum tugum ferkílómetra gæti fallið niður að miklu leiti. Þar að auki þarf ekki lengur að ferja gras í flutningabíla förmum til meðhöndlunar sem eitt og sér dregur úr mengun og kostnaði en afleiddar áhrif væru meðal annar minna álag á sorphirðustöðvar.

Nýtum landið okkar betur og búum til vistfræðilega fjölbreytt græn svæði innan Reykjavíkur sem hafa víðtæk jákvæð áhrif og stuðla að betra umhverfi bæði fyrir okkur íbúana og umhverfið okkar allt í heild.

Höfundur er landfræðingur og Reykvíkingur.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×