Samkvæmt tilkynningu frá FRÍSK halaði No Time to Die inn rúmlega 87 milljónum króna í miðasölu. Yfir 58 þúsund kvikmyndahúsagestir sáu Daniel Craig kveðja hlutverk sitt sem leyniþjónustumaðurinn vinsæli 007 og var kvikmyndin nokkuð örugglega aðsóknarmesta mynd ársins.
Á hælum Bond á aðsóknarlista ársins mættu til leiks annars konar hetjur en fyrsta mynd Hannesar Þórs Halldórssonar, Leynilögga, sló heldur betur í gegn. Leynilögga þénaði yfir 76 milljónir í miðasölu en yfir 40 þúsund manns lögðu leið sína í kvikmyndahús til að sjá ofurlögguna Bússa berjast við hættulegustu glæpamenn landsins.
Í þriðja sæti listans var svo nýjasta myndin um ofurhetjuna vinsælu Spider-man. Kvikmyndin Spider-man: No Way Home var frumsýnd viku fyrir jól en þrátt fyrir það klifraði Köngulóarmaðurinn alla leið upp í þriðja sæti listans yfir vinsælustu myndir ársins. Á fyrstu tveimur vikum sínum í sýningu þénaði kvikmyndin yfir 61 milljónir króna í miðasölu og höfðu þá yfir 40 þúsund manns séð hana í kvikmyndahúsum hérlendis.
Einungis tvær íslenskar kvikmyndir rötuðu inn á listann yfir tuttugu tekjuhæstu kvikmyndir ársins en fimmtán íslensk verk voru sýnd í kvikmyndahúsum á árinu samkvæmt tilkynningunni.
„Þrátt fyrir að einungis tvær íslenskar myndir hafi komist á listann yfir tekjuhæstu kvikmyndirnar mátti þó sjá aukningu í heildartekjum af íslenskum kvikmyndum og heimildamyndum. Heildartekjur af íslenskum verkum á árinu voru yfir 146 milljónir króna samanborið við tæpar 116 milljónir árið 2020 en það er yfir 26 prósent aukning. Um 86 þúsund manns keyptu sig inn á íslensk verk á árinu samanborið við 70 þúsund manns á árinu 2020. Tvær kvikmyndir tóku til sín meirihlutann af aðsókn ársins en það voru áðurnefnd Leynilögga og gamanmyndin Saumaklúbburinn sem fengu yfir 74 prósent af heildartekjum íslenskra verka á árinu.“
Samtals nam miðasala í íslenskum kvikmyndahúsum 1.084.391.002 kr., sem er 62,4 prósent hækkun frá árinu á undan. 765.894 manns lögðu leið sína í kvikmyndahús á árinu sem er tæplega 50 prósent aukning frá árinu 2020.
Lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndirnar á árinu 2021 má sjá hér að neðan. Tekið er fram í tilkynningu FRÍSK að vinsældum mynda er ávallt raðað eftir tekjum en ekki aðsókn. Þetta er gert til þess að hlutfall boðsmiða eða afsláttarmiða í umferð hafi ekki áhrif á uppröðun kvikmynda.
FRÍSK (Félag rétthafa í sjónvarpi og kvikmyndum) eru hagsmunasamtök rétthafa kvikmynda- og sjónvarpsefnis. Á listanum hér fyrir neðan má sjá topplistann yfir kvikmyndirnar ásamt upplýsingum um dreyfingaraðila, frumsýningardag, tekjur og tölur yfir aðsókn hér á landi.
- No Time To Die Myndform Myndform Indie 8.10.2021 87.657.692 kr.Aðsókn 58.018
- Leynilögga (Cop Secret)* Samfilm Sam Indie 20.10.2021 76.375.016 kr. Aðsókn 41.534
- Spider-man: No Way Home (2021)* Sena Sony Pictures 17.12.2021 61.111.467 kr. Aðsókn 40.495
- Dune (2021) Samfilm Warner Brothers 17.9.2021 42.754.365 kr. Aðsókn 27.749
- Paw Patrol - The Movie (2021) Samfilm UIP-Paramount 18.8.2021 34.392.988 kr. Aðsókn 29.270
- Free Guy Samfilm Walt Disney Studios 11.8.2021 33.950.637 kr. Aðsókn 23.760
- Saumaklúbburinn Myndform Myndform Indie 2.6.2021 32.586.899 kr. Aðsókn 19.036
- Black Widow Samfilm Walt Disney Studios 7.7.2021 30.641.950 kr. Aðsókn 20.680
- Tom & Jerry (2021) Samfilm Warner Brothers 19.2.2021 29.504.842 kr. Aðsókn 26.029
- Shang-Chi and the Legend of the Ten Rings Samfilm Walt Disney Studios 3.9.2021 28.234.769 kr. Aðsókn 19.053
- Venom: Let there be Carnage Sena Sony Pictures 22.10.2021 24.420.769 kr. Aðsókn 16.157
- The Suicide Squad (2021) Samfilm Warner Brothers 6.8.2021 22.083.234 kr. Aðsókn 14.257
- Space Jam: A New Legacy Samfilm Warner Brothers 14.7.2021 22.037.526 kr. Aðsókn 18.451
- Fast & Furious 9 Myndform UIP-Universal 23.6.2021 22.030.196 kr. Aðsókn 14.862
- Godzilla vs Kong Samfilm Warner Brothers 24.3.2021 21.126.294 kr. Aðsókn 14.771
- Eternals Samfilm Walt Disney Studios 5.11.2021 19.679.743 kr. Aðsókn 12.756
- The Conjuring; The Devil Made Me Do It Samfilm Warner Brothers 4.6.2021 19.455.351 kr. Aðsókn 12.469
- A Quiet Place Part 2 Samfilm UIP-Paramount 28.5.2021 18.082.206 kr. Aðsókn 11.643
- Raya and the Last Dragon Samfilm Walt Disney Studios 5.3.2021 17.031.266 kr. Aðsókn 14.965
- The Boss Baby: Family Business Myndform UIP-Dreamworks 4.8.2021 14.774.965 kr. Aðsókn 12.715