Erlent

Töld­u enga ógn staf­a af gísl­a­tök­u­mann­in­um eft­ir rann­sókn

Samúel Karl Ólason skrifar
Malik Faisal Akram tók gísla í bænahúsi gyðinga í Texas á laugardaginn og var skotinn til bana eftir rúmlega tíu klukkustunda umsátur.
Malik Faisal Akram tók gísla í bænahúsi gyðinga í Texas á laugardaginn og var skotinn til bana eftir rúmlega tíu klukkustunda umsátur. EPA/RALPH LAUER

Leyniþjónusta Bretlands var með Malik Faisal Akram til rannsóknar árið 2020. Þar á bæ var komist að þeirri niðurstöðu að af honum stafaði engin ógn og því gat hann ferðast til Bandaríkjanna þar sem hann keypti sér byssu og tók fjóra gísla um síðustu helgi.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt gíslatökuna vera hryðjuverk en Akram krafðist þess að Aafia Siddiqui yrði sleppt úr haldi. Hún er frá Pakistan og var dæmd fyrir tengsl við al-Qaida og fyrir að ætla að myrða bandaríska hermenn í Afganistan.

Samkvæmt heimildum Guardian var rannsókn MI5 á Akram ekki umfangsmikil og lauk henni á seinni hluta ársins 2020.

Að rannsókninni lokinni var komist að þeirri niðurstöðu að engin ógn stafaði af Akram og var máli hans lokað. Guardian segir að Bandaríkjamönnum hafi ekki verið veittur aðgangur að gögnum um hann.

Akram tók gísla í bænahúsi gyðinga í Texas á laugardaginn og var skotinn til bana eftir rúmlega tíu klukkustunda umsátur.

Þá kastaði Charlie Cytron-Walker, rabbíni, stól í Akram og notuðu hann og tveir aðrir tækifærið til að flýja. Þegar þeir sluppu réðust lögregluþjónar til atlögu gegn Akram sem dó. Lögreglan hefur enn ekki greint frá því hvort Akram hafi verið skotinn af lögregluþjónum eða hvort hann hafi skotið sjálfan sig.

Sjá einnig: Rabb­ín­i kast­að­i stól í gísl­a­tök­u­mann­inn og gísl­arn­ir flúð­u

Akram var 44 ára gamall og frá Blackburn í Englandi. Hann hafði nýverið ferðast til Bandaríkjanna þar sem hann er talinn hafa keypt sér skammbyssu í einkasölu.

Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) er að skoða ferðir hans í Bandaríkjunum og virðist sem hann hafi haldið til í skýlum fyrir heimilislausa. AP fréttaveitan hefur eftir forsvarsmanni eins neyðarskýlis að Akram hafi verið skutlað þangað af manni sem faðmaði hann.


Tengdar fréttir

Gíslarnir lausir og byssumaðurinn látinn

Bandaríska alríkislögreglan réðist inn í bænahús gyðinga Colleyville í nótt, tíu tímum eftir að maður tók fjóra einstaklinga þar í gíslingu. Byssumaðurinn er látinn en lögregla hefur ekki viljað gefa upp hvernig dauða hans bar að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×