Erlent

Tókst ætlunar­verkið: Yngsta kona sögunnar til að fljúga um­hverfis hnöttinn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Zara kom við á Reykjavíkurflugvelli í ágúst á síðasta ári.
Zara kom við á Reykjavíkurflugvelli í ágúst á síðasta ári. Vísir/Egill

Hin nítján ára gamla Zara Rutherford lenti í Belgíu, heimalandi sínu, í dag og er þar með yngsta kona sögunnar til þess að fljúga einsömul hringinn í kringum jörðina. 

Ferðin tók alls um fimm mánuði en Zara tafðist um tvo mánuði vegna veðurs. Hún eyddi meðal annars mánuði í Alaska og var veðurteppt í rúmlega fjörutíu daga í Rússlandi.

Þegar hún lenti í Belgíu í dag biðu þar fjölskylda hennar og vinir. Zara var svo sannarlega í spennufalli, samkvæmt frétt Breska ríkisútvarpsins.

„Þetta er bara alveg rosalegt, ég á enn eftir að meðtaka þetta,“ sagði hún við blaðamenn sem biðu ólmir eftir viðtali við heimsmetahafann.

Hún kvaðst glöð yfir því að hafa tekið verkefnið á hendur sér og sagði að erfiðast hafi verið að fljúga yfir Síberíu: „Það var svo rosalega kalt og ef vélin hefði drepið á sér er ég ekki viss um að ég hefði lifað það af,“ sagði hún og benti á að það tæki björgunaraðila fleiri klukkutíma að komast á vettvang í óbyggðunum, ef henni tækist þá að svífa vélinni til jarðar.

Zara kom til Íslands í ágúst á þessu ári, degi eftir að för hennar umhverfis hnöttinn hófst. Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 sagði hún að Ísland væri líklega eitt fallegasta land í heimi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×