Innlent

Nokkur útköll vegna veðurs á norðvestanverðu landinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Slysavarnafélagið Landsbjörg, björgunarsveit, neyðarlínan, 112
Slysavarnafélagið Landsbjörg, björgunarsveit, neyðarlínan, 112 Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Björgunarsveitir hafa frá því í gærkvöldi sinnt útköllum vegna óveðurs á Bíldudal, Siglufirði, Suðureyri, Þingeyri og í Grundarfirði. Á Bíldudal losnaði flotbryggja skömmu fyrir miðnætti og þá fauk einnig svalahurð upp á Siglufirði.

Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að tekist hafi að tryggja flotbryggjuna og festa svalahurðina.

Þá hafi borist útkalla vegna glugga í íþróttahúsinu á Suðureyri sem höfðu brotnað í veðrinu í nótt. Þá þurfti að veiða lausamuni upp úr höfninni á Þingeyri en þeir höfðu fokið þar ofan í.

Einnig var björgunarsveitin í Grundarfirði kölluð út klukkan ellefu þegar þakplötur voru að fjúka af bóndabæ í grennd við sveitarfélagið.

Í áðurnefndri tilkynningu er minnt á að enn sé vonskuveður víða um land. Fjallvegir séu lokaðir og veðurviðvaranir í gildi. Best sé fyrir fólk að bíða með ferðalög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×