Þetta má lesa út úr nýjum tölum Seðlabanka Íslands um bankakerfið, sem birtust í morgun, en ný lán með veði í íbúð að frádregnum uppgreiðslum hafa því aukist vel yfir 600 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Það er um þrefalt meiri vöxtur en 2018 og 2019 þegar ný íbúðalán bankanna jukust um rúmlega 110 milljarða á hvoru ári fyrir sig.
Vaxtalækkanir Seðlabankans til að bregðast við efnahagsáhrifum farsóttarinnar í upphafi árs 2020 – vextir lækkuðu þá á skömmum tíma úr 3 prósentum í 0,75 prósent – örvuðu mjög íbúðamarkaðinn og heimilin flykktust til bankanna, sem buðu þá hagstæðustu vaxtakjörin á markaði, til að sækja sér lán til fasteignakaupa eða endurfjármögnunar. Á sama tíma greiddu sjóðsfélagar hins vegar upp íbúðalán sín hjá lífeyrissjóðunum enda þótt nú séu vísbendingar um að heimilin séu á ný farin að leita til sjóðanna vegna lána til íbúðakaupa.
Rétt eins og árið áður kom vöxturinn í nýjum íbúðalánum bankanna til vegna óverðtryggðra lána en þau jukust um meira en 362 milljarða á meðan heimilin greiddu upp verðtryggð lán fyrir samanlagt um 55 milljarða á árinu 2021.
Heimilin hafa nánast sagt alfarið skilið við að taka lán til fasteignakaupa á breytilegum vöxtum samtímis aukinni verðbólgu og væntingum um enn frekari vaxtahækkanir Seðlabankans en þeir hækkuðu úr 0,75 prósent í 2 prósent í fyrra. Frá því um mitt síðasta ár hefur þannig verið lítil sem engin aukning í veitingu nýrra íbúðalána bankanna á breytilegum vöxtum á meðan slík lán á föstum vöxtum hafa vaxið um liðlega 100 milljarða króna yfir sama tímabil.
Í desember á síðasta ári námu ný óverðtryggð íbúðalán bankanna samtals um 18,5 milljarðar króna en aðeins um 8 prósent þeirra lána voru með breytilegum vöxtum.
Töluverð eftirspurn var eftir lánum með breytilegum vöxtum á fyrri hluta síðasta árs – nettó ný útlán voru um 25 milljarðar króna í bæði apríl og maí 2021 – en síðan þá hefur veiting slíkra lána farið ört minnkandi. Ummæli sem Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóri lét falla í hlaðvarpsþætti sumarið 2021 vöktu mikla athygli en þar ráðlagði hann fólki að festa vexti.
Ný útlán bankanna til atvinnufyrirtækja jukust um liðlega 48 milljarða króna síðasta ár borið saman við aðeins tæplega átta milljarða á öllu árinu 2020. Á sama tíma og afar lítill vöxtur hefur verið í útlánum bankakerfisins til fyrirtækja um nokkurt skeið hefur atvinnulífið í auknum mæli verið að sækja sér fjármögnun til annars konar lánveitenda, einkum fagfjárfestasjóða og eins með skuldabréfaútgáfum á markaði.
Auk þess að hækka vexti á undanförnum mánuðum hefur Seðlabankinn gripið til aðgerða á vettvangi fjármálastöðugleika- og fjármálaeftirlitsnefndar – hlutfall hámarks veðsetningar fasteignalána var lækkað í 80 prósent og eins settar reglur um 35 prósenta hámark á greiðslubyrði – í því skyni að reyna kæla fasteignamarkaðinn. Vísitala húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 18,4 prósent á undanförnum tólf mánuðum en lágt vaxtastig, ásamt sögulega litlu framboði á eignum, hefur drifið áfram verðhækkanir á fasteignamarkaði.
Í síðustu Peningamálum Seðlabankans, sem komu út í nóvember, var bent á að skuldir heimila sem hlutfall af vergri landsframleiðslu væru meiri nú en þegar faraldurinn hófst í ársbyrjun 2020. Skuldsetningin væri þó enn hófleg. Veðsetningarhlutfall nýrra íbúðalána hefði hækkað að meðaltali, meðal annars vegna hækkandi íbúðaverðs, en taka þyrfti tillit til þess að hlutfall fyrstu kaupenda hefur farið hækkandi, að sögn Seðlabankans.
Á undanförnum mánuðum hefur nokkuð dregið úr ásókn heimilanna í óverðtryggð lán hjá bönkunum, eins og Innherji hefur áður fjallað um, samhliða því að vaxtakjör þeirra hafa farið versnandi undanfarna mánuði eftir stýrivaxtahækkanir Seðlabankans en tólf mánaða verðbólga mælist nú 5,1 prósent.
Bankarnir bjóða þannig ekki lengur bestu kjörin á óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum, lánaform sem heimilin sóttu nánast alfarið í á árunum 2020 og 2021, en sumir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, eins og meðal annars Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna, eru í dag með lægri vexti á slíkum sjóðsfélagalánum en til dæmis Landsbankinn og Íslandsbanki.
Hrein ný lán lífeyrissjóðanna til heimila námu um 1.449 milljónum króna í nóvember á árinu 2021. Var það í fyrsta sinn í um næstum eitt og hálft ár sem slík sjóðsfélagalán eru meiri en sem nemur uppgreiðslum innan mánaðar.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.