„Íslenskar hryssur sjá til þess að gyltur verði þungaðar á réttum tíma og að framboð til kjötvinnslustöðvanna verði ekki truflað. Hormónin eru fengin með aðferðum sem dýraverndunarsinnar lýsa sem pyntingum.“
Svona hefst frétt Das Erste og er þar meðal annars rætt við þýskar konur sem eiga íslenksa hesta.
„Ótrúlegt. Þetta er ógeðslegt. Ég gæti ekki sofið ef þetta væru hestarnir mínir,“ segja Monika Hardt og Christiane Kniebes, hestakonur.
Í fréttinni segir að margir íslendingar hafi ekki vitað hvað færi fram við blóðtöku mera fyrr en þýsk dýraverndunarsamtök, Animal Welfare Foundation, hafi birt myndband af blóðtökuferlinu á YouTube í nóvember.
Segir hægt að halda úti svínakjötsframleiðslu án hormónanna
Myndbandið vakti mikla athygli hér á landi og hefur blóðmerarhald verið til mikillar umræðu. Í kjölfar birtingar myndbandsins hefur til að mynda verið lögð fram tillaga á Alþingi um að banna blóðmerahald hér á landi.
Hormón, sem fást með blóðtöku fylfullra hryssa hér á Íslandi, eru notuð í svínakjötsframleiðslu í Þýskalandi. Hormónin tryggja að gyltur verði þungaðar á réttum tíma.
Axel Wehrend, prófessor í dýralækningum við Justus-Liebig háskólann segir mögulegt að halda uppi framleiðslu á svínakjöti án þess að nota hormónin.
„Það er samt meiri hætta á að allt kerfið muni bila, kannski felur það í sér aðeins meiri fyrirhöfn. En það má segja mjög skýrt, það eru dæmi í Þýskalandi, þar á meðal á stórum bæjum, að hægt sé að framleiða smágrísi á hagkvæman hátt án þess að nota hormónin sem fástu úr blóðmerum.“
Hægt er að horfa á frétt Das Erste í heild sinni hér.