Erlent

Segja Biden munu standa við lof­orð um að til­nefna svarta konu

Atli Ísleifsson skrifar
Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, á fréttamannafundi í gær.
Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, á fréttamannafundi í gær. AP

Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir að Joe Biden Bandaríkjaforseti muni standi við áður gefin loforð um að tilnefna svarta konu í stól hæstaréttardómara, nú þegar staða dómarans Stephen Breyer losnar í júní næstkomandi.

Breyer tilkynnti í gær að hann hafi óskað eftir að hætta störfum við réttinn en hann er elsti starfandi dómarinn við réttinn og var tilnefndur af Bill Clinton forseta árið 1994. Er hann einn þeirra þriggja sem tilheyra frjálslyndari armi réttarins.

Sex dómarar við réttinn tilheyra hinum íhaldssamari armi og því mun nýr dómari, skipaður af Demókratanum Biden, ekki hafa áhrif á hlutföll íhaldssamra og frjálslyndra dómara í Hæstarétti Bandaríkjanna.

Hæstiréttur Bandaríkjanna gegnir lykilhlutverki í bandarísku þjóðfélagi og hefur úrslitavald þegar kemur að fjölda deilumála, þar með talið deilum einstakra ríkja og alríkisins, frestun á aftökum og þannig mátti áfram telja.

Dómarar við Hæstarétt Bandaríkjanna eru æviráðnir, en það er forseti sem tilnefnir dómara og staðfestir öldungadeild Bandaríkjaþings tilnefninguna.

Psaki sagði á blaðamannafundi í gær að Biden hafi áður lýst því yfir og ítrekað að hann myndi tilnefna svarta konu þegar staða myndi losna við réttinn. Það standi.

Svört kona hefur aldrei áður gegnt embætti hæstaréttardómara. Tveir svartir karlmenn hafa gegnt dómaraembætti í Hæstarétti Bandaríkjanna – þeir Thurgood Marshall (1967 til 1991) og svo hinn 73 ára Clarence Thomas sem tók sæti í réttinum árið 1991 og verður nú elsti starfandi dómarinn í réttinum.

Þrjár konur starfa nú við réttinn - þær frjálslyndu Elena Kagan og Sonia Sotomayor, og svo hin íhaldssama Amy Coney Barrett.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×