„Ég trúi því af öllu hjarta að við munum bera sigur úr býtum,“ segir Sólveig Anna í samtali við fréttastofu.
Sólveig Anna sagði af sér formennsku í október eftir að starfsfólk Eflingar varð ekki við ósk hennar um stuðningsyfirlýsingu.
„Af einhverjum ástæðum var hópur þarna sem gat ekki starfað með mér og lét sér ekki duga að vera óánægð með mig sem yfirmann heldur fór í það að bera út úm mig ósannar sögur. Ég get ekki borið ábyrgð á gjörðum annarra,“ segir Sólveig í samtali við fréttastofu.
Sólveig segir að það sem hafi breyst síðan þá sé að stór hópur hafi skorað á hana að gefa aftur á sér kost.
„Ég tók þessa ákvörðun að vel ígrunduðu máli, ekki af léttúð, heldur vegna þess að ég get bara ekki hugsað mér að félagið fari aftur í það far sem það var í fyrir árið 2018. Vegna þess að það sem við gerðum var að okkur tókst að breyta duglausu bákni sem tók þátt í að viðhalda samræmdri láglaunastefnu yfir í fremstu baráttusamtök verkafólks, með óumdeilanlegum árangri,“ segir Sólveig.
Listi Sólveigar heitir Baráttulistinn, B-listinn, og býður fram gegn A-lista, skipuðum af uppstillingarnefnd, þar sem fyrrum félagi Sólveigar, Ólöf Helga Adolfsdóttir, skipar fyrsta sæti. Einnig verður listi Guðmundar Jónatans Baldurssonar í framboði en hann var mjög gagnrýninn á Sólveigu í aðdraganda og í tengslum við afsögn hennar.
Því hefur nú verið haldið fram að þér hafi verið boðið sæti á A-listanum.
„Það var hringt í mig frá uppstillingarnefnd, ég var spurð. Ég lít ekki svo á að mér hafi verið boðið sæti. Það er töluvert langt síðan það var. Þá hafði ég ekki hug á að gera það,“ segir Sólveig.
Þú hefðir samt líklega geta sóst eftir því að vera á listanum. Hefurðu þá bara gaman af slagnum?
„Eins og öllum ætti að vera ljóst hræðist ég ekki að taka slagi. En ég vil þá samt nota tækifærið og segja að ég og félagar mínir erum ekki í slag við aðra félagsmenn Eflingar. Við erum að taka slaginn fyrir félagsfólk Eflingar til þess að félagið sé öflugt og sterkt og geti farið inn í slaginn við andstæðinga verka- og láglaunafólks,“ segir Sólveig.
Skrifstofufólkið, það hafa verið sagðar af því fréttir að þar sé fólks innanborðs sem muni fara ef þú kemur aftur. Hvað finnst þér um það?
„Við því vil ég segja að nú fær félagsfólk Eflingar tækifæri til að kjósa og svo er það lýðræðislegur vilji þess sem ræður því hverjir stýra félaginu. Þeir sem stýra félaginu stýra svo auðvitað líka skrifstofunni. Sé það svo að einhverjir þar geti ekki hugsað sér að vinna með lýðræðislega kjörinni forystu er það einfaldlega þeirra mál og ekki mitt eða félaga minna,“ segir Sólveig.