Innlent

Jafnaðar­­menn úti­­­loka ekki sam­runa

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ragna Sigurðardóttir forseti Ungra jafnaðarmanna.
Ragna Sigurðardóttir forseti Ungra jafnaðarmanna. Ungir jafnaðarmenn

Ungir jafnaðarmenn kalla eftir auknu samstarfi milli stjórnmálaflokka á vinstri væng. Formaður vill ekki ganga svo langt að segja að samruni Ungra jafnaðarmanna og annarra ungliðahreyfinga sé í kortunum en aldrei sé að vita hvað framtíðin beri í skauti sér.

Ályktun um aukið samstarf hreyfinga var samþykkt mótkvæðalaust á landsþingi Ungra jafnaðarmanna fyrr í dag. Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna, vonar að aðrar ungliðahreyfingar séu opnar fyrir frekara samstarfi. Hún segir að jafnaðarmenn hafi ákveðið að stíga fyrsta skrefið.

„Það eru mismunandi sjónarmið hvað aukið samstarf og aukin samstaða feli í sér en niðurstaðan var í rauninni sú að það var samstaða um að leitast eftir auknu samstarfi. Það var þetta byrjunarskref sama hver lokaafurðin yrði,“ segir Ragna í samtali við fréttastofu og bætir við að ungliðahreyfingar á borð við Pírata, Sósíalista, Vinstri grænna, Viðreisnar og Framsóknar komi til álita.

Ragna segir að ályktunin feli í raun ekki í sér að samruni ungliðahreyfinga sé á döfinni og verði jafnvel að nýjum stjórnmálaflokki í náinni framtíð. Yfirlýsingin feli þannig ekki í sér drastískar breytingar þá þegar en það sé þó aldrei að vita hvað aukið samstarf hafi í för með sér.

„En það er aldrei að vita hvað kemur út úr viðræðum. Við erum rétt að hefja viðræður við aðrar ungliðahreyfingar og kanna áhugann fyrir auknu samstarfi fyrst og fremst. Og hvort það felur svo í sér einhvers konar samruna eða aukið samstarf, hversu formlegt eða óformlegt það þá yrði,“ segir Ragna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×